Höskuldur Eyjólfsson í Saurbæ í Villingaholtshreppi og síðar á Hofsstöðum í Borgarfirði er hér uppí horninu, á Goða sínum. Kempulegur erknapinn og fangreistur hesturinn. Höskuldur var Sleipnisfélagi og frægur maður hér um slóðir. Eiðfaxamenn birtu viðtal í síðasta blaði við Gísla son  hans sem flutti ellefu ára með  fjölskyldunni í Borgarfjörðinn 1938, að Hofsstöðum. Ennfremur segir frá því í blaðinu að nú ætli þeir að heiðra minningu  Höskuldar með hestagerði í Reykholti og hafi fengið til liðs við sig Pál á Húsafelli sem muni klappa hetjuna í stein.

 

Forgöngumenn þessa eru séra Geir Waage og Guðlaugur Óskarsson fyrrverandi skólastjóri. Gísli Höskuldsson og Ingimar Sveinsson, báðir þjóðþekktir hestamenn, hafa fallist á að mynddiskur er tekinn var í vor og sumar, þar sem þeir ríða gæðingum sínum Hauki 29 vetra og Pílatusi 26 vetra, sé seldur til ágóða verkefninu. Höskuldur telst einn fremsti hestamaður tuttugustu aldarinnar. Það var tignarleg sjón að sjá öldunginn á hvítum hesti, hvítan fyrir hærum fara fyrir liði Borgfirðinga á Landsmótum. Eitt sinn fór Höskuldur fyrir liði Íslands í hópreið á HM í Þýskalandi og er öllum ógleymanleg sjón er þar voru. Þá áttuðu útlendingar sig á því að hesturinn okkar er allra kynslóða. Guðlaugur hafði í haust að hætti Höskuldar farið í nokkrar réttir Borgfirðinga með tvo gráa frá Hofsstöðum, annan undir ,,trússi Höskuldar,“ hlaðinn diskunum söluvænu. Guðlaugur hefði átt að koma til okkar í Reykjaréttir, þar hefðu menn viljað heiðra minningu Höskuldar. Hér um slóðir þótti mönnum mikið til Höskuldar koma. Guðjón í Uppsölum minnist þess þegar Höskuldur, Guðjón á Bollastöðum og Guðmundur Einarsson riðu um héraðið, þeim fylgdi gustur og gríðarþokki. Hestar fóru afar vel hjá Höskuldi og var hann á undan sinni samtíð í hugsun um íslenska hestinn. Hann leit á kosti hestsins út frá töltinu þýða og þelinu mjúka, hann var ekki með veðhlaupa eða kappreiðahugsun fyrst og fremst var það reiðmennskan, hæfni knapans og gæðingsins á tölti, brokki eða skeiði með fjúkandi manir. Verðlaun sótti hann þó fyrstur Sleipnismanna á Kappreiðar Fáks 1932, þar sá  hann og sigraði á þremur hestum hlaut fern verðlaun. Höskuldur var glaðsinna í góðra vina hópi og ungum mönnum eftirbreytniverður tamningamaður. Nú ætla menn að reisa honum minnisvarða í Reykholti, hestagerði er verður nefnt eftir honum og bautastein.

Vígslan verður á Þjóðhátíðardaginn næsta hinn 17. júní. Höskuldarvaka verður kvöldið áður í Logalandi í Reykholtsdal. Það væri nú glæsilegt ef Sleipnismenn og sunnlenskir hestamenn söðluðu gæðinga sína og riðu um Kaldadal til Borgarfjarðar og yrðu viðstaddir þennan mikla atburð íReykholti, Höskuldi og hans fólki til heiðurs. Höskuldur lést hundrað og eins árs 1994. Þeir sem vilja heiðra minningu Höskuldar hafi samband við Guðlaug í síma 8615971 eða á gudlaugur@vesturland.is en fyrir fimm þúsund króna framlag fá þeir sendan til sín mynddiskinn.

Reiðhöllinni miðar vel áfram nú er skeljasandurinn efsta lagið kominn í hús, hann kemur frá því gamla og göfuga fyrirtæki Björgun ehf í Reykjavík. Styttist óðum í stóra stund Sleipnismenn.

 

Guðni Ágústsson

netfang: gudni.ag@simnet.is