Þá er vertíðin hjá Hestamönnum komin á fulla ferð, hver atburðurinn mun rekja annan. Sumarið með Landsmót á Vindheimamelum og stemningu hinna lífsglöðu Skagfirðinga, þar munu menn upplifa það sem hinn ástsæli leikari og hestamaður Flosi heitinn Ólafsson söng svo vel þegar ég var unglingur. „Það er svo geggjað að geta hneggjað.“
Landsmótin eru uppskeruhátíðir og mæla árangur í kynbótum hrossabóndans og á hvaða leið hestamennskan er á hverjum tíma, þar greina menn framfarir í ræktuninni og reiðlistinni. Þar koma saman þeir sem bera hitann og þungann í kringum Íslandshestinn svo og áhugamenn um hestinn og lífsgleðina. Útlendingar fjölmenna á Landsmótin þúsundum saman.
Enginn einn atburður á Íslandi dregur jafn marga áhugamenn til Íslands og Landsmótin og hesturinn. Ennfremur vegna hrossapestarinnar illræmdu og frestun á Landsmóti af þeim sökum í fyrra ber Heimsmeistaramót einnig uppá sumarið í sumar. Heimsmeistaramótin eru heimsviðburður og óviðjafnanlegir leikar og því trúir enginn Íslendingur nema að upplifa þá stemningu sem hesturinn okkar skapar í tugum þjóðlanda. Þegar ég sótti slík mót sem Landbúnaðarráðherra fannst mér að forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson setti bæði Landsmótin og ekki síður Heimsmeistaramótin á æðra plan. Forsetinn og forsetafrúin voru í hópreiðinni við setningu, þau drógu að mótunum bæði góða gesti og mikla athygli. Ég fann að ávörp forsetans vöktu jafnan athygli og umræðu í erlendum fjölmiðlum. Útlendingum fannst sérstakt að sjá þjóðhöfðingann á þessum samkomum hvort hann hét Ólafur Ragnar Grímsson eða Vigdís Finnbogadóttir. Því miður bar hestamönnum ekki gæfa til að halda í þessa hefð hvað sem olli því. Hinsvegar eiga forystumenn mótanna beggja að endurnýja gömul kynni og fá forsetann og forsetafrúna á ný til liðs við sig. Þau halda á lykli sem opnar umræðu og dyr fyrir hestamenn og hestinn okkar og Ísland í leiðinni. Stærsti atburður síðustu viku var upphaf Meistaradeildarinnar í hestaíþróttum, Ölfushöllin var þrungin spennu og hvert sæti setið. Ofurknapinn Sigurður Sigurðarson í Þjóðólfshaga sigraði með glæsibrag í fjórgangi á Loka frá Selfossi með einkunina 7,57. Loki er í eigu Ármanns Sverrissonar sem er Sleipnisfélagi og vaxandi hestamaður. Þegar ég hitti svo Sverri guðföður Loka og föður eigandans og sagði við hann „ja þetta var ekki há einkunn hjá Loka.“ Þá sigu augabrúnir Sverris að hætti okkar Brúnastaðamanna og röddin varð eins og ránarfall og hann sagði. ,,Ja það er auðheyrt bróðir að þú ert ruglaður í þessu og veist lítið um svona íþróttakeppni. Þessi einkunn Sigurðar og Loka er líklega hæsta einkunn sem hefur verið gefin í svona keppni fram að þessu, að fá 8,00 telst nánast fullt hús stiga.- Ég varð að játa mig sigraðan einu sinni enn. Sigurður sjálfur sagði mér að það hefði verið samspil hans og Loka sem hefði skilað þeim á toppinn en þeir höfðu yfirburða forystu. Um Stóðhestinn og gæðinginn Loka frá Selfossi sagði Sigurður svo. ,,Loki er yfirburðar snillingur mjúkur og fjaðurmagnaður.“ Þeir eru flottir á myndinni hér upp í horninu.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.i