Nú er hann Þorkell Bjarnason hér  í horninu. Enginn einn maður hefur haft jafn mikil og farsæl áhrif á ræktunarstefnu íslenska hestsins. Sem barn að aldri nam hann hestamennsku og reiðlistina við fótskör föður síns, Bjarna skólastjóra. Fyrsti folinn sem var sumarkaupið hans frá systkinunum í Fjalli á Skeiðum hafði líka sín áhrif. Hann var 12 ára þegar hann reið frá Laugarvatni í Fjall að sækja folann, gerði hann leiðitamann og hélt svo heim en Ingólfur á Iðu ferjaði strákinn og hestana yfir ólgandi Hvítá.

 Þorkell á Laugarvatni helgaði íslenska hestinum og hestamönnum starfskrafta sína. Þorkell var Landsráðunautur í hrossarækt frá 1961 til 1996 eða í þrjátíu og fimm ár. Stundum vilja menn vera að bera saman störf og stefnur Gunnars Bjarnasonar og Þorkels. Það er ástæðulaus samanburður báðir voru þeir miklir af sjálfum sér. Sjónarmið þeirra féllu saman á mörgum sviðum en svo greindi þá á í öðrum efnum. Gunnar var sá sem með hugsjónaeldi greip kyndilinn og hóf hann á loft á örlagastundu, hann var magnaður áróðursmaður og talent. Gunnar sannfærði umheiminn um að íslenski hesturinn væri gull og gersemi vann mörg lönd og sigra. Þorkell hinsvegar tekur við forystunni ungur að aldri á mjög viðkvæmum og tvísýnum tímum í sögu hestsins. Þorkell var lærður búvísindamaður frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri sótti sér síðan frekara nám í hrossarækt og reiðmennsku til Þýskalands og víðar. Það er Þorkell sem þróar einkunnaskala kynbótastarfsins. Hann var öruggur og stefnufastur og vissi hvert skyldi halda í æktunarstarfinu. Þorkell hvikaði aldrei frá því markmiði að það væri alhliða gæðingurinn sem við ættum að rækta, fimmgangshesturinn. Þorkell mætti gagnrýni og stóryrðum með hógværð og festu þess manns sem vissi hvert hann var að fara. Margt munum við úr orðræðunni en eitt fannst honum mjög stórt atriði sem allir viðurkenna í dag fótagerðin og hófar og undirbygging hestsins og sköpulag. Stundum heyrði ég að Þorkell hefði staðið gegn útflutningi á kynbótahrossum og þá var talað um afturhaldssemi. Þetta var deilumál lengi og hart tekist á um stefnu. Þorkell mat það svo að íslenskir hagsmunir væru þannig að um sinn færu ekki bestu hestarnir úr landi stofninn væri of veikur og peningamenn erlendis of sterkir. Í þessu varð prinnsippið að gilda að hans mati „allt eða ekkert.“ Baráttan stóð um það hvort við héldum forystuhlutverkinu í ræktuninni. Í þá daga voru ráðunautar að dæma fimm hundruð kynbótahross á ári, en í dag um tvö þúsund. Við sem kvöddum Þorkel hinstu kveðju frá Skálholti og í grafreitnum á Laugarvatni vorið 2006 urðum vitni að ógleymanlegri sjón. Fyrir líkfylgdinni fór stóðhesturinn Þóroddur úr ræktun Bjarna sonar hans. Þóroddur drúpti höfði eins og við hin yfir moldun leiðtogans. Þóroddur er lifandi goðsögn um ræktunarstefnu Þorkels Bjarnasonar og í honum rættust allir draumar hans um gæðinginn. Þessi  einhver fegursti og mesti stóðhestur Íslandssögunnar var þarna eins og vitnisburður um lífsstarf Þorkels Bjarnasonar. Nú sjáum við afkvæmi Þórodds frá Þóroddsstöðum í Rangárhöllinni á Hellu á laugardaginn kemur í stóðhestaveislunni miklu.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is