Ágætu lesendur ég óska ykkur gleðilegrapáska og gleðilegs sumars. Aldrei man ég eftirpáskum á sumri. Svo vekur það líka athygli að í júlí kemur upp sú staða að í þeim sólarmánuði verða að þessu sinni fimm sunnudagar fimm laugardagar og fimm föstudagar. Páskarnir eru helgaðir kirkjunni og ekki síst Jesús Kristi sem var krossfestur á föstudaginn langa af grimmum auðvaldsseggjum af því að þeir óttuðust hann. Svo gerðist kraftaverkið á páskadag. Hann breytti heiminum á óvenju stuttri starfsævi. Jesús starfar í raun enn á meðal okkar og bætir dauðlega menn um víða veröld. Enn kaupa menn flísar úr krossi hans og muni tengda minningunni um þennan einstaka mann. Öll ferðaþjónusta gengur út á að selja og upplifa menn og staði segja sögur sjá og skynja. Á þessu ári munu koma fleiri ferðamenn til Íslands en nokkru sinni, margir tengdir hestinum enda Landsmót á Vindheimamelum og hestaferðirnar vinsælar. Suðurland er söguhérað geymir Skálholt Þingvöll og Haukadal. Enn eigum við staði og atburði menn og uppákomur sem ekki hafa verið gerð skil og geta verði minningunni sýndur sómi aflað fjár og skapað vinnu. Hugsum okkur það að Gissur hvíti sagði þegar hann hafði drepið þjóðhetjuna Gunnar á Hlíðarenda: „Mikinn öldung höfum vér nú af velli lagt og mun vörn hans uppi meðan landið er byggt.“ Fyrir tuttugu árum fundu Rangæingar loksins út að Njála var saga sem kallaði á ferðamenn úr víðri veröld og nú ætla þeir að gera Njálsbrennu skil í sumar enda þúsund ár frá því að Flosi vann þar sitt voðaverk. Glæsilegt framtak hjá fjölskyldunni á Þorvaldseyri sem hefur opnað gestastofu í þjóðbraut til að segja sögu frægasta eldgoss seinni tíma í máli og myndum, þau grípa tækifærið strax. Milljónir manna munu koma þar á næstu áratugum að fræðast og upplifa örlög og afleiðingar hamfaranna. Ætli það líði þúsund ár þangað til við áttum okkur á að uppí Laugardælakirkjugarði liggur merkilegasti skákmaður heimsins frá upphafi veraldar. Bobby Fischer verður þá enn í umræðunni sem undrabarn og einstakur snillingur. Hann varð Íslendingur þegar vösk sveit manna frelsaði hann undan ofsóknum Bandaríkjamanna úr fangelsi í Japan. Alþingi gerði hann að ríkisborgara á einu kvöldi. Skáksetrið sem ég ofl. lögðum til að yrði stofnað fyrir þess vegna alþjóðlegt fé fær litlar undirtektir. Hversvegna taka Selfyssingar og Flóamenn ekki forystuna reisa Fischerssetrið í Laugardælum þar sem pílagrímar og ferðamenn koma þegar í stríðum straumum til að heiðra minningu snillingsins, en fá ekki kaffi og enga flís eða skákmenn til að kaupa. Hversvegna ekki að breyta Laugardælakirkju þessari fallegu kirkju sem er byggð í minningu manns í gestastofu um fleiri hún væri fullsæmd af því ef heimamenn og kirkjan vilja það. Þá gætu menn upplifað skákir og minningar frá heimsmeistaraeinvíginu og allar perlurnar milljónir manna kæmu í kirkjuna. Síðan ætlar Boris Spassky sjálfur að liggja við hlið keppinautarins á efsta degi. Það má svo breyta gamla sögufræga læknishúsinu í skákhús eða skákakademíu. Selfoss yrði skákborg með sérstöðu. ,,Stígum nú í hnakkinn, Haukdælir, lítt höfum vér aukvisar verið! Orð Gissurar Þorvaldssonar og Björns vinar míns í Úthlíð í Þjóðlendustríðinu. Kjarkmenn báðir og góðar fyrirmyndir, látum verkin tala.

 Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is