90. héraðsþing HSK í Brautarholti: 

Þrjú gullmerki HSK veitt á héraðsþingi HSK. Héraðsþing HSK var haldið í Brautarholti sl. laugardag og mættu um 100 manns á þingið. Móttökur heimamanna voru frábærar, en þing sambandsins var nú haldið í fyrsta sinn í Brautarholti í rúmlega 100 ára sögu sambandsins. 


Í upphafi þings voru veitt þrjú gullmeki sambandsins, en þau hlutu nefndarfólk í sögu- og minjanefnd HSK, þau Haraldur Júlíusson, Lísa Thomsen og Þorgeir Vigfússon. Gullmerkishafarnir hafa allir starfað í áratugi innan sambandsins. Öll hafa þau verið í framlínunni hjá félögum sínum, Haraldur með Umf. Njáli, Lísa með Umf. Hvöt og Þorgeir með Umf. Skeiðamanna. Auk þeirra var Ragnar Sigurðsson, fráfarandi varaformaður og félagsmaður í Umf. Þór, sæmdur silfurmerki sambandsins. 

Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, sæmdi á þinginu þá Þóri Haraldsson, Umf. Selfoss og Markús Ívarsson, Umf. Samhygð, gullmerki ÍSÍ. Báðir hafa þeir Þórir og Markús starfað innan íþróttahreyfingarinnar í áraraðir og sinnt trúnaðarstörfum fyrir félög sín og hreyfinguna á héraðs- og landsvísu. 

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, gerði starf sjálfboðaliða að umtalsefni sínu þegar hún ávarpaði þingið og í kjölfarið afhenti hún Fanneyju Ólafsdóttur og Anný Ingimarsdóttur starfsmerki UMFÍ. Fanney situr í stjórn HSK og er formaður starfsíþróttanefndar sambandsins. Þá hefur hún setið í stjórn glímuráðs um árabil auk þess sem hún er fyrrverandi formaður Umf. Vöku. Anný á sæti í varastjórn HSK en hún starfaði lengi í blaknefnd sambandsins auk þess sem hún hefur sinnt stjórnarstörfum í Umf. Samhygð. 

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, var valin íþróttamaður HSK árið 2011 úr hópi tilnefndra íþróttamanna. 

Guðríður Aadnegard, formaður HSK afhenti á þinginu Körfuknattleiksdeild Hamars foreldrastarfsbikarinn, Hestamannafélaginu Geysi unglingabikarinn og Ungmennafélag Selfoss fékk bikar sem stigahæsta félag í heildarstigakeppni ársins. Þá var Magnús Gunnlaugssson úr Umf. Hrunamanna útnefndur öðlingur ársins. 

Miklar og góðar umræður fóru fram í fjórum starfsnefndum þingsins og nokkrar tillögur urðu til í nefndum og alls voru 29 tillögur samþykktar á þinginu. Reikningar sambandsins voru lagðir fram, en rúmlega 1,1 milljóna króna hagnaður var af rekstri sambandsins . 

Guðríður Aadnegard var endurkjörin formaður HSK og Örn Guðnason var kosinn varaformaður, en hann kemur nýr inn í stjórn sambandsins í stað Ragnars Sigurðssonar, fráfarandi varaformanns sambandsins til 10 ára, en hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Aðrir stjórnar- og varstjóranrmenn voru endurkjörnir, utan Ástu Laufeyjar Sigurðardóttur, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs í varastjórn. Guðmundur Jónasson, formaður Umf. Heklu, kemur nýr inn varastjórn, í stað Ástu. 

Stjórn HSK 2012 skipa: 

Formaður: Guðríður Aadnegard Íþr.f. Hamri 

Gjaldkeri: Hansína Kristjánsdóttir Umf. Selfoss 

Ritari: Bergur Guðmundsson Umf. Selfoss 

Varaformaður: Örn Guðnason Umf. Selfoss 

Meðstjórnandi: Fanney Ólafsdóttir Umf. Vöku 

Varamenn: Lára Bergljót Jónsdóttir Umf. Skeiðamanna 

Anný Ingimarsdóttir Umf. Samhygð 

Guðmundur Jónasson Umf. Heklu 

Stjórn HSK vill koma á framfæri þakklæti til þeirra sem komu að undirbúningi þinghaldsins. Forystu Umf. Skeiðamanna er sérstaklega þakkað fyrir góðar móttökur og frábæra umgjörð þinghaldsins. Skeiða- og Gnúpverjahreppi er þakkaður stuðningurinn, en sveitarfélagið bauð þingfulltrúum og gestum til hádegisverðar á þinginu. Arion banka er þakkað framlag vegna kostunar á verðlaunahátíðinni á þinginu. 

Íþróttafólk verðlaunað á héraðsþingi sambandsins: 

Fjóla Signý íþróttamaður HSK 

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, var valin íþróttamaður HSK árið 2011 úr hópi rúmlega tuttugu tilnefndra íþróttamanna og voru þeir verðlaunaðir á héraðsþinginu sl. laugardag. 

Kjör Íþróttamanns HSK hefur farið fram árlega frá árinu 1964 og er Fjóla sú 27. í röðinni frá upphafi. Hún er 14. frjálsíþróttamaðurinn sem er valinn íþróttamaður HSK, síðast til að hljóta þann titlil úr röðum frjálsíþróttamanan var Vigdís Guðjónsdóttir árið 2004. 

Líkt og undanfarin ár kaus fimm manna valnefnd íþróttamann HSK 2011 úr röðum þeirra sem tilnefndir voru af nefndum og ráðum sambandsins. Auk þeirra tilnefnir stjórn sambandsins íþróttamenn í fimm greinum, þar sem ekki er starfandi nefnd eða ráð. 

Í ár voru íþróttamenn úr 21 grein valdir í jafn mörgum íþróttagreinum. 

Kjör íþróttamanns HSK 2011 

Greinargerðir 

Frjálsíþróttamaður HSK 2011 

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, er frjálsíþróttamaður HSK 2011. 

Fjóla náði glæsilegum árangri á frjálsíþróttavellinum á árinu. Hún varð margfaldur Íslands- og bikarmeistari og tífaldur HSK meistari. Hún setti 18 HSK met og var valin í A-landslið Íslands og stóð sig frábærlega í Evrópukeppni landsliða í Reykjavík. Fjóla Signý er í Afreks- og landsliðshópi FRÍ árið 2012. Fjóla er jákvæð persóna, gefur mikið af sér og hefur jákvæð og hvetjandi áhrif á félaga sína. 

Nánari upplýsingar um íþróttamann HSK 2011 

Fjóla bætti sinn besta árangur í sjö greinum utanhúss og í sex greinum innahúss. Á Meistaramótum og Bikarkeppnum ársins 2011 varð Fjóla þrefaldur Íslandsmeistari og fjórfaldur Bikarmeistari í fullorðinsflokki í sínum sterkustu greinum, þ.e. 100m. grindahlaupi, 400m. grindahlaupi og hástökki og svo í verlaunasæti í öðrum greinum sem hún keppti í á þeim mótum. Hún vann svo til átta gullverðlauna á Unglingameistaramóti Íslands á árinu auk nokkurra silfur og bronsverðlauna. 

Fjóla er mjög fjölhæf frjálsíþróttakona og varð hún Íslandsmeistari í fimmtarþraut innanhúss og sjöþraut utanhúss með nokkurhundruð stiga bætingu í bæði skiptin. Alls vann hún til 31 verðlauna á þeim átta stærstu mótum sem haldin eru hér árlega og sýnir það enn og betur hversu fjölhæf súlkan er. 

Fjóla setti alls 18 HSK met á árinu og náði þeim frábæra árangri að vera valin í A-Landslið Íslands, í 100m. og 400m. grindahlaup og í 4x400m. boðhlaupi, sem keppti í Evrópukeppni Landsliða í Reyjavík í lok júní. Þar stóð Fjóla sig frábærlega og varð til að mynda þriðja í 400m. hlaupi á stórbætingu er hún hljóp á 57,52sek. en átti áður 60,47sek., þá hljóp hún lokasprett Íslands í 4x400m. boðhlaupi og landaði silfurverðlaunum. 

Fjóla sigraði í 400m. grindahlaupi á Eyrarsundsleikunum í Svíþjóð og náði að auki silfurverðlaunum í 100m. grindahlaupi. Á mjög sterku alþjóðlegu móti í Finnlandi náði hún 4. sæti í 400m. grindahlaupi á nýju HSK meti og sló þar með 17 ára gamalt HSK met.  

Fjóla er lykilmaður í HSK og Selfoss liðunum á meistaramótum og bikarkeppnum og þá var hún varð tífaldur HSK meistari á árinu. 

Á afrekalista sumarsins hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands er Fjóla í fyrsta sæti í 400 m. grindahlaupi. Hún er í 2. sæti í 100m. grindahlaupi, 3. sæti í hástökki og þrístökki. Þá er hún í 2. sæti í há 

stökki og fimmtarþraut innanhúss og í 3. sæti í 400 m. hlaupi. 

Badmintonmaður HSK 2011 

Imesha Chaturanga, Íþróttafélaginu Hamri, er badmintonmaður HSK árið 2011. 

Hann varð þrefaldur HSK meistari á árinu, í karlaflokki, U19 og í sínum flokki U17. Ismesha er prúður leikmaður sem hefur tekið miklum framförum og verið sigursæll að undanförnu og kann að taka ósigri jafnt sem sigri af sannri íþróttamennsku. 

Blakmaður HSK 201

Hugrún Ólafsdóttir, Íþróttafélaginu Hamri, er blakmaður ársins hjá HSK 2011. 

Hugrún hefur verið einn helsti máttarstólpi blakliðs Hamars og stundar íþrótt sína vel. Hugrún er ákaflega samviskusöm og metnaðargjörn fyrir sjálfa sig og lið sitt og nákvæm í öllum sínum aðgerðum. 

Borðtennismaður HSK 2011 

Bergrún Linda Björgvinsdóttir , Íþróttafélaginu Dímon, er borðtennismaður HSK 2011. 

Hún var m.a. fjórfaldur Íslandsmeistari í sínum aldursflokki og HSK meistari. 

Briddsmaður HSK 2011 

Sigurður Skagfjörð, Íþróttafélaginu Dímon, er bridgemaður HSK 2011. 

Hann hefur verið virkur í stjórn og spilastjóri Bridgefélags Rangæinga frá 1999. Sigurður ásamt makker sínum hefur unnið Meistarakeppni Bridgefélags Rangæinga þrisvar sinnum á síðustu árum og er Sigurður núverandi HSK-meistari. 

Fimleikamaður HSK 2011 

Helga Hjartardóttir , Umf. Selfoss, er fimleikamaður HSK 2011. 

Helga keppti í hópfimleikum með liði Selfoss HM1 og með blönduðu liði Ollerup í Danmörku. Á Norðurlandamóti seniora varð hún Norðurlandameistari í hópfimleikum með Ollerup. Hún er íþróttakona af lífi og sál, traustur liðsmaður, hefur mikinn metnað og sjálfsaga og er góð fyrirmynd jafnt innan vallar sem utan. 

Golfmaður HSK 2011 

Andri Már Óskarsson, GHR, er golfmaður HSK árið 2011. 

Andri varð klúbbmeistari GHR og HSK meistari. Hann lék til úrslita og hafnaði í öðru sæti eftir bráðabana í Íslandsmótinu í holukeppni sem fram fór á Strandarvelli. Andri var valinn í lið landsbyggðarinnar í bikarnum gegn liði höfuðborgarinnar og spilaði sig inn í afrekshóp GSÍ. 

Glímumaður HSK 2011 

Marín Laufey Davíðsdóttir , Umf. Samhygð, er glímumaður HSK árið 2011. 

Hún er handhafi Bergþóruskjaldarins. Marín Laufey náði sínum besta árangri í glímu á árinu með því að verða fyrst kvenna innan HSK til þess að sigra Íslandsglímuna og hljóta Freyjumenið ásamt sæmdarheitinu, Glímudrottning Íslands . Hún náði í verðlaunasæti á öllum glímumótum er hún tók þátt í. Marín Laufey er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan og var valin glímukona ársins af Glímusambandi Íslands. 

Handkattleiksmaður HSK 2011 

Atli Kristinsson, Umf. Selfoss , er handknattleiksmaður HSK 2011. 

Frammistaða Atla á vellinum hefur verið góð á árinu. Hann lék afar vel eftir áramót keppnistímabilið 2010/11 og átti þar marga frábæra leiki. Það sem af er keppnistímabilinu 2011/12 hefur hann dregið vagninn fyrir lið sitt. Atli er mikill félagsmaður, jafnt innan vallar sem utan og góð fyrirmynd fyrir unga iðkendur er vilja temja sér heilbrigt líferni og sannan liðsanda. 

Hestaíþróttamaður HSK 2011 

Sigursteinn Sumarliðason , Hestamannafélaginu Sleipni, er hestaíþróttamaður HSK 2011. 

Árið var gott hjá Sigursteini. Hann varð Íslandsmeistari í tölti og landsmótssigurvegari í sömu grein. Einnig var hann í A-úrslitum í öllum hringvallargreinunum á Landsmóti hestamanna sem er frábær árangur. Sigursteinn hampaði annað árið í röð Sleipnisskildinum eftirsótta í A-flokki á Gæðingamóti Sleipnis. Sigursteinn var kjörinn íþróttaknapi ársins 2011 á uppskeruhátíð hestamanna. 

Íþróttamaður fatlaðra 2011 

Hulda Sigurjónsdóttir, Íþróttafélaginu Suðra, er íþróttamaður HSK 2011 úr röðum fatlaðra. 

Hæst ber árangur Huldu í kúluvarpi en hún setti Íslandsmet í flokki þroskaheftra s.l. sumar. Hún hampaði Íslandsmeistaratitlum í frjálsum íþróttum í sínum flokki bæði innan- og utanhúss og náði góðum árangri í sundi. Hulda æfir af miklu kappi og leggur mikið á sig til að ná árangri. Hulda er góður félagi og félagsandinn skiptir hana miklu máli. 

Judómaður HSK 2011 

Þór Davíðsson , Umf. Selfoss, er júdómaður HSK 2011. 

Þór stundaði æfingar að miklum krafti á árinu og árangurinn lét ekki á sér standa. Þór hefur keppt á öllum stóru júdómótunum hérlendis í -90 kg flokki og glímt við fremstu júdómenn landsins og staðið sig vel. Þór hlaut styrk frá Júdósambandi Íslands til að keppa á Matsume Cup sem er stórt alþjóðlegt mót og haldið var í Danmörku. Þar stóð Þór stóð sig best allra Íslendinga. 

Knattspyrnumaður HSK 2011 

Guðmunda Brynja Óladóttir , Umf. Selfoss, er knattspyrnumaður HSK 2011. 

Guðmunda Brynja spilaði með meistaraflokki Selfoss, en liðið komst upp í Pepsi deildina í fyrsta skipti í sögu félagsins. Hún hefur verið atkvæðamikil með yngri landsliðum Íslands og æfði með þremur landsliðum Íslands á árinu og stóð sig frábærlega. Guðmunda Brynja er eitt mesta efni sem fram hefur komið í kvennaboltanum á Selfossi og ávallt verið félagi sínu til sóma. Hún var valin íþróttakona Árborgar 2011. 

Kraftlyftingamaður HSK 2011 

Rósa Birgisdóttir, Umf. Selfoss , er kraftlyftingamaður HSK 2011. 

Rósa keppti í öllum þremur greinunum í kraftlyftingum á Íslandsmeistaramótinu og vann +84 kg þyngdarflokkinn. Á Íslandsmeistaramótinu í réttstöðulyftu vann hún +84 kg þyngdarflokkinn og setti Íslandsmet. 

Körfuknattleiksmaður HSK 2011 

Íris Ásgeirsdóttir úr Hamri, er körfuknattleiksmaður HSK 2011. 

Hún var fyrirliði meistaraflokks kvenna á síðustu leiktíð þegar liðið varð deildarmeistari Iceland Express deildarinnar 2011 sem er stærsti titill Körfuknattleiksdeildar Hamars fram að þessu. Íris er afar góð fyrirmynd þeirra sem yngri eru. Hún tekur æfingar alvarlega og leggur sig alla fram og spilar ávallt af einbeitingu og yfivegun. 

Mótorkrossmaður HSK 2011 

Einey Ösp Gunnarsdóttir , Umf. Selfoss , er mótorkrossmaður HSK 2011. 

Hún keppti á mörgum mótum síðasta sumar og endaði í 4. sæti í stigakeppni til Íslandsmeistara. Einey Ösp var dugleg að æfa íþrótt sína síðastliðið ár og leggur mikinn metnað í greinina. 

Skákmaður HSK 2011 

Ingibjörg Edda Birgisdóttir, Umf. Selfoss , er skákmaður HSK 2011. 

Hún hefur teflt á Íslandsmóti skákfélaga og náð mjög góðum árangri. Besti árangur hennar er sigur á Meistaramóti Skákfélags Selfoss og nágrennis. Ingibjörg er ekki aðeins sterkur skákmaður heldur félagi góður og með framtakssemi sinni hefur hún lagt sitt af mörkum til þess að efla skákstarf á Suðurlandi. 

Skotíþróttamaður HSK 2011 

Jónas Sigurðsson, Skotíþróttafélagi Suðurlands, er skotíþróttamaður HSK 2011. 

Jónas er atkvæðamikill keppnismaður og fjölhæfur og góður skotmaður. Hann keppti í riffil- og haglabyssugreinum á árinu og stóð sig frábærlega. Jónas er duglegur félagsmaður og hefur starfað af mikilli ósérhlífni fyrir félagið á liðnu ári. 

Starfsíþróttamaður HSK 2011 

Jón M. Ívarsson , Umf. Samhygð, er stafsíþróttamaður HSK 2011. 

Hann sigraði á héraðsmóti í stafsetningu sem haldið var á árinu. Jón hefur keppt í stafsetningu á öllum Landsmótum UMFÍ frá því sú keppni var fyrst tekin upp á landsmótinu á Egilsstöðum árið 2001 og ávallt náð góðum árangri. Þá hefur hann oft tekið þátt í héraðsmótum í stafsetningu og alltaf verið í fremstu röð. 

Sundmaður HSK 2011 

Ólöf Eir Hoffritz , Umf. Selfoss, er sundmaður HSK 2011. 

Ólöf Eir náði góðum árangri á öllum sundmótum HSK á liðnu ári. Hún hefur verið í stöðugri bætingu og hlotið viðurkenningar innan sunddeildar Selfoss fyrir góðan árangur og ástundun. Ólöf Eir er mjög samviskusöm, hún er efnilegur sundmaður og mun eiga framtíðina fyrir sér í greininni ef hún stundar sundið eins vel og hún gerir nú. 

Taekwondomaður HSK 2011 

Ingibjörg Erla Grétarsdóttir , Umf. Selfoss, er taekwondomaður HSK 2011. 

Hún keppti á sex sterkum mótum, þar á meðal HM í Kóreu, EM unglinga á Kýpur og NM í Danmörku. Árangur Ingibjargar Erlu var mjög góður og hennar besti hingað til en hún er Norðurlandameistari í sínum flokki og náði einnig gullverðlaunum á Scandinaviar Open í Danmörku nú í haust. TKÍ valdi Ingibjörgu Erlu nú í þriðja sinn taekwondokonu ársins. 

Fréttapunktar: 

Aðalfundir Umf. Bisk. og íþróttadeildar félagsins 

Aðalfundir Ungmennafélags Biskupstungna og íþróttadeildar félagsins verða haldnir í Aratungu í kvöld, fimmtudag. Aðalfundur íþróttadeildar hefst kl. 20:00 og aðaldeildar svo strax þar á eftir. Á fundunum fara fram venjuleg aðalfundarstörf. Fyrir liggur að Ingibjörg Einarsdóttir, ritari íþróttadeildar, gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Vakin er sérstök athygli á því að fyrir fundi aðaldeildar liggur fyrir tillaga um að farið verði í að rita sögu félagsins. Þá má geta þess að á aðalfundi íþróttadeildar verður íþróttamaður og íþróttakona félagsins útnefnd. Félagar UMF. Bisk. eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðum um starf félagsins. Þá eru nýjir félagar velkomnir í félagið. Kaffiveitingar verða í boði félagsins. 

Frjálsíþróttaþing á Selfossi 

58. þing Frjálsíþróttasambands Íslands verður haldið í Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi um helgina og hefst kl. 17:00 á morgun, föstudag. Sjá nánari upplýsingar á www.fri.is . 

Málþing um íþróttadómara 

Málþing um íþróttadómara verður haldið í íþróttamiðstöðinni í Laugardal miðvikudaginn 21. mars 2012 kl. 17.00-20.00. Skráning er í síma 514-4000 eða á linda@isi.is Í boði verður kaffi og léttar veitingar. Allar frekari uppl. gefur sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ í síma 460-1467 eða á vidar@isi.is . Sjá nánar á www.isi.is


Skjaldarglíma Skarphéðins 

Skjaldarglíma Skarphéðins verður haldin á Hvolsvelli 24. mars 2012 kl. 13:00.

Athygli er vakin á að um 50 myndir frá þinginu má sjá á   www.hsk.is