Æskulýðsnefnd Sleipnis stóð fyrir spilakvöldi sunnudagskvöldið 18. mars sl. kl. 18:00 í félagsheimilinu.
Spiluð var félagsvist á sex borðum, bæði börn og foreldrar. Öllum þeim sem á þurftu að halda var veitt aðstoð við spilamennskuna. Eftir tvær umferðir var verulega var farið að falla á suma yngri spilamennina, enda margir hverjir búnir að vera á fótum frá því eldsnemma um morguninn við æfingar fyrir Hestafjörið og það því látið gott heita. Að spilamennsku lokinni bauð æskulýðsnefnd öllum upp á léttar veitingar, pizzur, gos og kaffi.
Verðlaun fyrir flesta slagi kvöldsins voru gefin af Fóðurblöndunni og voru það þau Anna Sigurveig Ólafsdóttir með 97 slagi og Guðmundur Bjarni Arnarson með 88 slagi sem hrepptu þau.
Þessari skemmtilegu kvöldstund lauk síðan er klukkan fór að nálgast 21:00.
Æskulýðsnefnd Sleipnis vill þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn, hvort sem var við undirbúning, frágang eða aðstoð við spilamennsku.
Sérstakar þakkir til Fóðurblöndunnar á Selfossi sem lagði til vinninga og Pizza Íslandia sem styrkti okkur myndarlega við pizzukaupin.

