Reiðkennarinn og hrossaræktandinn Þórdís Erla Gunnarsdóttir getur unað vel við árangur á kynbótasýningunni á Brávöllum í Selfossi. Í gær sýndi Þórdís Erla 4 vetra stóðhest úr eigin ræktun, Hrafnar frá Auðsholtshjáleigu, og hlaut hann fyrstu einkunn. Með árangrinum hefur móðir Hrafnars, Gígja frá Auðsholtshjáleigu náð tilskildum stigum og afkvæmafjölda til heiðursverðlauna.
Gígja, sem er í eigu Þórdísar Erlu, er 16 vetra undan Orra frá Þúfu og Hrafntinnu frá Auðsholtshjáleigu. Hún er mikil hæfileikameri, hæsti dómur hennar er frá árinu 2002 en þá hlaut hún í aðaleinkunn 8,64, þar af 9,05 fyrir hæfileika!
Afkvæmi Gígju eru nú þegar farin að láta bera á sér á keppnisvellinum, Þórdís Erla keppti t.a.m. á Þyrnissyninum Hreggviði, í fimmgangskeppni Meistaradeildar með góðum árangri. Einnig sat hún Álfasteinsdótturina Þóru Dís þegar sýnikennsla hennar fór fram á afmælishátíð FT fyrr í vetur.
Birt m. góðfúslegu leyfi Eiðfaxa