Á fjölmennum félagsfundi í Hestmannafélaginu Sleipni nú á dögunum var tekin ákvörðun eftir útboð og samkeppni að byggja reiðhöll úr límtré frá BM Vallá 50m x 25m. Bygg­ingin mun rísa að Brávöllum á Selfossi. Mikil samstaða kom fram um málið á fundinum og urðu miklar umræður um fram­tíðina og hvernig að bygging­unni verður staðið. Félagssvæði Sleipnis nær yfir tvö sveitar­félög Árborg og Flóahrepp.Félagsmenn eru 400 talsins. Reiðhöllin er félagsmönnunum og félaginu mjög mikilvæg til að dragast ekki afturúr öðrum hestamannafélögum. Fundurinn samþykkti að gefa út sérstök hlutdeildarskírteini þar sem félagsmönnum svo og vel­unnurum ásamt fyrirtækjum væri gefinn kostur á að eignast hlut í reiðhöllinni á móti 51% hlut Sleipnis. Gefnir verði út 4000 hlutir og verði 1 hlutur verðlagður á 20 þúsund krónur. Þannig geti sem flestir eftir efnum og ástæðum verið með­eigendur að reiðhöllinni og lagt sitt að mörkum. Á fundinum reið formaður Sleipnis Guð­mundur Lárusson á vaðið og keypti 5 hluti á 100 þúsund krónur Kaupendur hlutdeildar­skírteinanna geta samið um ákveðna mánaðargreiðslu eða staðgreitt hlutina. Það kom fram að félagsmenn binda vonir við mikið framlag í sjálfboða­vinnu við bygginguna. Félags­menn munu lyfta grettistaki og reisa höllina fyrir jól, það er góð jólagjöf til framtíðarinnar. Ólafur Sigfússon frá Ketil­stöðum hefur boðist til að grafa fyrir sökklunum og gefur þá vinnu. Vilhelm Skúlason frá Mána í Keflavík var gestur fundarins áður Selfyssingur sagði frá reiðhöll Mána sem stendur fullbyggð og skuldlaus félagsmönnum sínum til þjónustu. Vilhelm keypti síðan einn hlut í væntanlegri reiðhöll Sleipnis. Hann sagði jafnframt frá kvennadeild Mána sem vann kraftaverk þar. Reiðhöllin verður eign Sleipnismanna og mun hún efla mjög hesta­mennsku á félagssvæðinu, hún er lykill að reiðkennslu og æskulýðsstarfi. Reiðhöllin er jafnframt mikilvæg sýningar- og menningarhöll fyrir Suður­land. Reiðhöllin er líka mikil­væg fyrir hátíðir og uppákomur í ferðaþjónustu og mun nýtast vel fyrir landbúnaðinn sem slík. Það var ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um nafn á Reiðhöllina. Mikill velvilji ríkir í garð byggingarinnar meðal fyrirtækja og hafa nokkur þegar heitið stuðningi sínum. BM Vallá hefur nú heitið 1 milljón í auglýsinga­styrk og ríður þar á vaðið. Aðkoma Landbúnaðar­ráðu­neytisins liggur fyrir með fram­lagi úr reiðhallarsjóði uppá 25 milljónir, Árborg hefur heitið góðum stuðningi. Sleipnis­­­menn ætla að byggja reiðhöll með samstilltu átaki og enn er langt til jóla ágætu félagar.

 

Með kærri kveðju,

Guðni Ágústsson