Jólafastan er gengin í garð, þá lýsa Íslendingar umhverfi sitt upp með jólaljósum. Sólin kemur blóðrauð upp í suðaustriundir hádegi, það er dimmt á norðurhveli jarðar á þessum tíma. Evrópa hefur síðustu daga verið undirlögð af fimbulkulda og harðindum, meðan fáum við einn mildan vetur enn, getum horft á bjartar stjörnur og norðurljós braga um breiðan himin. Frostið að vísu bítur í kinn á köldum vetrarmorgni og ultarkrunkið í krumma sem sefur í kaldri klettagjá í Ingólfsfjalli á nóttunni er sárt. Frostið hefur tvær hliðar það drepur líka ýmis kvikindi í náttúrunni sem annars myndu angra okkur á sumardögunum. Færðin eins og á sumardegi flesta daga og hlýtt í húsakynnum okkar.
Stundum gleymum við Íslendingar því hversu landið okkar er gjöfult og auðugt af ýmsu sem aðra vantar. Nú sitja flestir Evrópumenn dúðaðir í stofum sínum það er dýrt að kinda þar og gluggar eru lokaðir. Hér eru menn í stutterma bol og berfættir í suðrænum hita að horfaá sjónvarpið. Hér á hvert samfélag sundlaug með heitum pottum Snorra í Reykholti í seilingarfjarlægð sé potturinn ekki heima í garði. Við eigum haf og land og auðæfi í krafti fossanna jarðvarmans og sjávarfallanna. Við eigum bændur og sjómenn sem afla hráefna í dýrlegan mat, þessum lífsgæðum viljum við ekki fórna eða færa útlendingum á silfurfati á ímyndaðan gróða þess að hverfa inn í Evrópusambandið. Á dögunum kom ég til Akureyrar og gerði mér ferð í reiðhöllina miklu sem er ein af þessum 28 systrum sem eru getnar af sjóði Landbúnaðarráðuneytisins. Ég hitti hestamenn Léttis í höllinni, einn okkar færasti tamningamaður var að miðla Bandarískri Íslandshestakonu af kunnáttu sinni um hæfni gæðingsins á þessum morgni, úti var snjór upp í klof og hvergi hægt að gera það sem höllin bauð uppá. Þeir voru hamingjusamir Eyfirðingarnir með reiðhöllina og sögðu að hún hefði þegar haft byltingarkennd áhrif á félagsstarfið og áhugann á hestamennskunni á Akureyrarsvæðinu svo og kennslu og námskeið í reiðlist og færni ungra en ekki síður þeirra gamalgrónu sem alltaf gætu bætt við þekkingu sína í reiðlistinni. Félagsmenn hestamannafélagsins eru handhafar korts og kaupa á lágu verði aðgang að höllinni. Við Sunnlendingar vorum framarlega á ráðstefnunni Hrossarækt 2010. Af 14 búum sem hlutu viðurkenningu og voru tilnefnd til ræktunarverðlauna voru 6 þeirra á Suðurlandi. Þau Bergur og Olil Amble í Syðri-Gegnishólum góðir Sleipnismenn sigruðu að þessu sinni og er myndin uppi í horninu af þeim með blóm og grjót. Já þau eru grjóthörð í ræktunarstarfinu viljinn mikill og keppnisskapið einstakt. Önnur bú sem hrepptu verðlaun voru Auðsholtshjáleiga og Hvoll í Ölfusinu. Austurkot í Árborg. Kvistir og Þjóðólfshagi í Rangárþingi. Hestabúgarðarnir eru að skila miklu í ræktun og árangri.
Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is