Reiðhöll Sleipnismanna færist nær því að verða reiðfær, sé þetta sagt á máli hestamanna um góðan fola. Nú er allur kraftur og vinna lögð í skeiðvöllinn. Skítugur mulningur kemur ofaná grófu grúsina síðan harpaður og  þveginn skeljasandur. Valdimar Friðriksson sjálfboðaliðinn  vaski hugar að rekkverkinu og fótafjölinni, svo að verkamennirnir vösku geti á næstu vikum lokað hringnum. Þessi kraftur segir mér að námskeið geti hafist strax undir nýárs blessaðri sól. Nú vendi ég kvæði mínu í kross einn öflugasti félagsmálamaður hestamanna hélt uppá sextugsafmælið  sitt á sunnudaginn var. Kristinn Guðnason bóndi í Árbæjarhjáleigu er landskunnur maður vinsæll og vel látinn. Hann hefur í mörg ár verið  formaður Hrossabænda og stýrir sínum her til sóknar. Það var gott að eiga Kristin að þegar ég var Landbúnaðarráðherra, einu sinni sinnaðist okkur þó, ég skipaði veislustjórann í afmælinu hann Ágúst Sigurðsson Hrossaræktarráðunaut frá Kirkjubæ rektor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá sagði Kristinn:

,,Æ æ Guðni minn þetta gastu ekki gert okkur hestamönnum, við meigum ekki missa hann Gústa.“ Svona er Kristinn ég lýsti því í minni ræðu að hefði Kristinn verið uppi á Njálutímanum þá hefði Njála ekki verið skrifuð hann hefði sætt öll sjónarmið. Þá hefði enginn verið bardaginn og enginn hefði verið brenndur inni eða drepinn. Ágúst hefur reynst ötull og framsýnn rektor hann tók við tvö hundruð nemenda skóla, fimm árum síðar eru nemendurnir fimm hundruð og fimmtíu talsins. Hrossaræktarráðunauturinn sem tók við af Ágústi er heldur ekki af verri endanum afabarn Guðlaugs heitins Jónssonar hestamanns í Vík. Guðlaugur í Vík var fimmtán barna faðir útaf honum eru komnir um fjögur hundruð afkomendur og margir með hrossagenið í blóðinu. Enn heyra næmir menn hófadyninn austur í Vík þegar Guðlaugur kemur úr ,,Sumarlandinu,“ og þeysir hinar gömlu götur. Kristinn frá Skarði eins og við segjum gjarnan sækir það besta til góðra foreldra. Guðni faðir hans er ógleymanlegur höfðingi og áhugamaður um hestinn. Haustið 1998 hringdi nafni í mig og sagði að ég yrði að verða landbúnaðarráðherra eftir kosningar og bætti því við blessaður íhaldsmaðurinn að hann ætlaði að kjósa mig. Skarðsheimilið er einstakt þar  réði ríkjum með Guðna hún Theódóra hans. Dóra minnir helst á móður Theresu hún var og er vakin og sofin að leysa hvers manns vandræði. Gestir hennar fóru glaðir, saddir og sælir úr eldhúsi umhyggjunnar í Skarði. Eyjólfur Guðmundsson í Hvammi var nefndur Lands-höfðingi. Hann var sá sem Einar skáld átti við þegar hann undraðist mannvalið á Alþingi. „Ekki er Eyjólfur í Hvammi þar. Ekki er Gestur á Hæli þar og ekki er ég þar.“ Við eigum enn Lands-höfðingja í Kristni Guðnasyni. Ég flyt Kristni og Marjólýn og fjölskyldu hamingjuóskir og þakkir Sleipnismanna. Nú geri ég vopnahlé fram yfir hátíðar. Gleðileg jól.

 

 

Guðni Ágústsson

gudni.ag@simnet.is