Aðalfundur Hestamannafélagsins Sleipnis var haldinn í síðustu viku, elstu menn muna ekki jafn fjölmennan fund. Hún er hér uppí horninu hún Þórdís Ólöf Viðarsdóttir hún nýtur einróma stuðnings sem formaður í öflugri stjórn félagsins. Það ríkti mikil samstaða á fundinum og eftirvænting, reiðhöllin og reiðvegirnir nýju skapa samstöðu og bjartari framtíð.

Hrossabóndinn og reiðkennarinn snjalli Einar Öder Magnússon í Halakoti gekk fram fyrir skjöldu og bauðst til að halda námskeið í höllinni ekki síst fyrir sjálfboðaliðana verkglöðu. Einar er magnaður reiðkennari og kann að stýra stórum hópi í einu í svona reiðhöll, enda af samvinnumönnum kominn. Hann veit hvað það gerir fyrir hestinn að ríða honum í hringi sveigja hann og teygja og losa um bóga, ganghæfni hestsins styrkist. Einar Öder og hinir mörgu snjöllu reiðkennarar okkar og leiðtogar munu í anda þessarar yfirlýsingar styrkja félagið og sýna frammá að reiðhöllin lyftir grettistaki í almennri hestamennsku á Sleipnissvæðinu. Mikil umræða fer nú fram meðal hestamanna um hestinn, tamningu hans og reiðlistina, menn greinir eðlilega á um svo stórt málefni. Sigurbjörn Bárðarson hestamaður og náttúrutalent, hefur lifað tímana tvenna og í hátt í hálfa öld hefur hann sigrað á hestbaki, þó er hann lítið eldri en það. Ungu mennirnir vita þegar kóngurinn er kominn í hnakkinn þá er gullið torsótt. Sigurbjörn troðfyllti Rangárhöllina á dögunum og sagði mönnum til ,,syndanna.“ Hann varaði menn við hernaðarlistinni og aðferðum kerfisfræðinganna í kringum stóru sálarlausu hrossakynin. Sigurbjörn bað menn að tengja það besta úr sögunni inní það nýja ef það hentaði. Hann sagði mönnum að hesturinn ætti sér sál eins og þeir og viljann ættu menn að sækja með sjálfið óspillt. Snert hörpu mína sagði skáldið um það snýst reiðmennskan. Svo sýndi hann mönnum gamla beislið sitt frá 1965 og sagði ,,hér eru bestu mélin.“ Annar boðberi reiðlistarinnar af yngri kynslóðinni fyllir allar áheyrandastúkur einnig, það er Guðmar Pétursson úr Mosfellsbæ. Guðmar er hálærður Hólamaður en var strákur hjá Jóhanni Þorsteinssyni (Jóa heitnum vakra) norður í Skagafirði. Hann er fæddur á hestbaki og hefur gert garðinn frægan í Kentucky í Bandaríkjunum rekur þar hrossabúgarð og heldur námskeið um víða veröld. „Munnurinn á trippinu er heilagur,“ kenndi Jói honum. Þessi ungi maður er því eins og margir okkar bestu menn vel tengdur inní gamlan og nýjan tima. Síðan héldu Hrossaræktarmennirnir okkar í  Flóahreppi hátíð í Félagslundi þar mætti kempan Kristinn Hugason og sagði frá Ytra- Dalsgerðishrossunum. Kristinn talaði fyrir fullu húsi í minnst tvær klukkustundir og engum leiddist. Svona rétt eins og stjórnmálamennirnir gerðu á tímum Jónasar frá Hriflu og Ólafs Thors. Verði ljós og það varð ljós er upphafið að öllu, nú eru dagar rafvirkjanna í reiðhöllinni, hún skal vera upplýst og björt.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is