Engum blandast hugur um það lengur að reiðhöll Sleipnis er þegar farin að hafa mikil áhrif á hestamennskuna á Selfossi og í Flóanum. Þessi mikla aðstaða og byltingarkennda í öllu faglegu starfi í kennslu og námskeiðum og hátíðahaldi er auðvitað ekki ein um þetta. Það var öllum ljóst t.d. í Þorlákshöfn að Guðmundarhöllin var bylting þar og að hin stóra Ölfushöll á Ingólfshvoli gjörbreytti landslaginu í sýningum og stóratburðum hestamennskunnar á Suðurlandi. Rangárhallirnar á Hellu og Hvolsvelli svo og Flúðahöllin í uppsveitunum eru að gera það mjög gott. Hestamenn finna að landið er byrjað að rísa á ný eftir hrossapestina og enginn safnar jafn mörgu fólki saman og hesturinn á sýningar og stóra viðburði sem flestir fara fram í reiðhöllum yfir veturinn. Að vísu eru kóramót, viðburðir útmánaðanna í kirkjum og félagsheimilum landsins. Það er hesturinn og söngurinn sem helst reisir okkur upp frá umræðu um kreppu og vandræði hrunsins. Aldamótaskáldin sömdu ljóð og söngva í upphafi síðustu aldar sem dreif áfram bjartsýni og manndóm fólksins í landinu. Sá kraftur skilaði okkur í efstu hæðir hvað lífsgæði varðar í heiminum. „Íslendingar eiga önnur og meiri ónýtt tækifæri en nokkur þjóð í allri Evrópu,“ sagði útlendur spekingur. Nú er aðallega rætt um að gefa öðrum þessi tækifæri með okkur og að við tökum annarra þjóða vandræði á okkar herðar. Ég er samvinnumaður og geri mér grein fyrir mikilvægi þess að eiga gott samstarf við fólk í öðrum löndum, en okkar auðlindir og okkar sérstaða verður að vera eign barnanna okkar sem ætla að halda áfram að búa í okkar yndislega landi. Ísland er matvælaframleiðsluland, verð hækkar, eftirspurn vex eftir góðum mat, fiski, kjöti, skyri og smjörinu góða og hesturinn vinnur sín lönd á ný. Bjartsýni og trú er andlegt afl sem gefur einstaklingum og þjóðum sigra. Þegar Góa gamla hristir pils sín og hellir yfir okkur éljum fara margir að kvarta en veturinn hefur verið mildur á Íslandi. Stundum hugsa ég til fjarlægrar vinaþjóðar sem ég heimsótti og þar á ég hest sem þeir gáfu mér og heitir hann Skjóni. Fræðimenn telja íslenska hestinn upprunninn í Móngólíu og þaðan hafi hann borist til Evrópu sem harðsækinn og duglegur reiðhestur fótfrár og engum hesti líkur í stríði. Ekki fór það fram hjá mér að skildleiki er með þessum hrossakynjum. Séð hef ég ennfremur styttur og myndir í París sem eru eins og af okkar hesti.
Eitt sinn kom ég í Rússnesku Dúmuna með þingnefnd þar tók ég að lýsa íslenska hestinum þá stöðvaði mig gamall Landbúnaðarráðherra frá Aserbaidsjan við Kaspíahaf og sagði „hættu nú þetta er hesturinn okkar.“ Landbúnaðarháskóli Íslands undir stjórn doktors Ágústs Sigurðssonar hefur verið með samstarfsverkefni með hrossabóndanum og vísindamanninum Kára Stefánssyni í Íslenskri Erfðagreiningu en Gunnfríður Hreiðarsdóttir
doktorsnemi er að kafa ofaní þennan skyldleika, og verður fróðlegt að fylgjast með hennar niðurstöðu í málinu. Myndin er af mongólískum gæðingi.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is