Nú færist fjör í Sleipnisliðið vorblær í loftinu og reiðtúrarnir lengjast og kvöldið er bjart. Mikið um að vera í reiðhöllinni í námskeiðum og fróðleik og smátt og smátt þokast allt í rétta átt. Veturinn gera menn alltaf upp í öllum félögum með skemmtikvöldum. Nú gerðist það í Sleipni að stelpurnar höfðu ákveðið að halda kvennakvöld föstudaginn 15. apríl nk. þeim þykir gott að losna við karlpeninginn í eitt og eitt skipti og vera frjálsar. Í stað þess að leggjast í fýlu ákváðu karlarnir að hefna sín á konunum og hafa nú ákveðið að hafa kallakvöld, föstudaginn 6. maí í Þingborg.

Þetta verður héraðshátíð, karlar munu streyma að úr öllu konungsríkinu eins og danski kóngurinn nefndi Suðurlandsundirlendið þegar hann reið hvítum hesti upp Kambana eða var það Hannes Hafstein sem reið þeim hvíta og voru þeir að koma niður Kambana og sáu þetta
mikla hérað með Vestmannaeyjarnar úti í hafi ,,eins og safírar greiptir í silfurhring. Um suðurátt hálfa ná eyjarnar kring.“ Sagði skáldið og þetta var líklega árið 1907. Árni Johnsen ekki búinn að kristna Eyjamenn og ekki einu sinni fæddur. Það eru þeir Brósi á Selfossi og Steindór í Hólum og Hrafnkell frá Glóru sem blása í þessa herlúðra til að styrkja reiðhöllina. Nú bið ég alla hrausta karla að taka þetta kvöld frá af því má enginn
missa og menn eiga að koma um langan veg því kvöldið verður einstakt. Þarna verður þríréttuð máltíð humar í forrétt og lambalæri í aðalrétt kaffi og það sem ekki má nefna í eftirrétt. Veislustjórinn ekki af verri endanum og ræðumaður sem kann að spauga. Leynigestur og hver veit hvað lifandi tónlist, já ég hélt að tónlist væri
alltaf lifandi. Maður í búningi býður upp málverk og tolla úr bestu stóðhestum Íslands. Þarna verður happdrætti söngur og gleði. Taktu kvöldið frá og ég skora á kröftugar konur að búast í gerfi og vera á kallakvöldinu það hefði Þuríður formaður gert og mígið standandi. Svona kvöld lifa ég man enn þegar við Össur
Skarphéðinsson ættaður af Stokkseyri mættum á slíkt kvöld hjá knattspyrnumönnum og ég manaði Sævar Þór til að koma heim. Hann gerði það pilturinn með miklum árangri sem við þekkjum. Nú nálgast 9. apríl þann dag þykir mér vænt um af sérstökum ástæðum, það er önnur saga. Um annan dag í apríl þótti mér líka sérlega vænt um þá mátti maður hrella systkini sín, nei manni datt ekki í hug að plata foreldra sína eða ókunnuga þetta var 1. apríl. Það var eini dagurinn á ári sem maður mátti sem barn plata fólk og segja ósatt stutta stund. Hina dagana þegar maður lá undir grun að vera að segja ósatt spurðu þeir fullorðnu má ég sjá undir tunguna á þér, væri maður að ljúga var tungan svört og maður var settur í skammarkrókinn. Gamla fólkið lagði mikið uppúr heiðarleika siðferði og að segja satt og í raun og sann var heiðarleiki aðalsmerki Íslendinga þar til þessir útrásarvíkingar skekktu mannorð okkar hinna. Það er lögvarinn réttur minn bæði í íslenskum lögum og EES samningi að taka ekki á mig eða mín hross skuldabagga gjaldþrotabanka.

 Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.