Betra er að vera klakaklár og krafsa snjó til heiða en lifa mýldur öll sín ár undir hnakk og reiða. Oft grípa skáldin til myndlíkinga og tengja sig náttúrunni og margar fallegar vísur eru bundnar íslenska hestinum sem var þarfasti þjónninn og bar kynslóðirnar yfir fjöll og firnindi. Ljósmæður og læknar fóru ríðandi á milli bæja afburða hestamenn voru meðal Íslendinga gegnum aldirnar og það er gaman að sjá á myndum höfðinglegar konur í söðli og flotta reiðmenn sem sátu hestinn ekkert síður en okkar færustu hestamenn í dag. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig hefur verið að þeysiríða gæðingi eins og konurnar gerðu sitjandi í söðli, en flottar voru þær þessar hetjur. Þessi vísa er hinsvegar eftir Hermann Jónasson forsætisráðherra skóg ræktanda og mann sem leitaði til hesta sinna og í moldina þegar dagarnir þreyttu hann á púlsvinnunni í pólitíkinni.Frelsið og hvíldin er okkur öllum mikilvæg og að eiga ærlegt áhugamál sem gefur lífinu gildi. Hinsvegar sögðu gárungarnir að hrossin, já blessuð útigangshrossin ekki síst í fæðingarhéraði ráðherrans Skagafirði hefðu ekki tekið undir andann í vísunni. Víst er það að útigangurinn fór oft illa í hörðum vetrum, þessvegna er mikilvægt að allir þeir sem halda dýr þekki lögmálin og séu teknir úr umferð sé um slæma meðferð að ræða. Þetta á  við um allan búpening ekki bara útigangshross heldur dýr á húsi og að fólk kunni skil á fóðurfræði dýrin hafi aðgang að vatni og vistum, að vel sé farið með land og það ekki ofbeitt. Ég tel að Landgræðslan og Sveinn Runólfsson og hans menn hafi unnið kraftaverk í gróðurvernd og endurheimtu lands en jafnframt náð oft bestum árangri með landnýtingarráðunautum að deila þekkingu og vinna með bændum og lesa landið og beita það rétt. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum kom hér erlendur fræðimaður hollenskur ef ég man rétt hann orðaði það svo að það væri mikilvægt verkefni að allir þeir sem rækju fyrirtæki í náttúru landsins ættu aðgang að upplýsingum og þjónustu á hóflegu verði. Náttúran á að njóta vafans, náttúran er fljót að spillast sé rangt staðið að málum. Bændur eru náttúrubörn og þeim þykir vænt um jörðina sína og moldina frjóu og flestir þeirra eru þannig hugsandi að þeir vilja fá tvö strá þar sem eitt óx áður. Hitt er líka mikilvægt eins og með okkur sjálf að rétt sé fóðrað hross þjást af hor þau þjást líka séu þau of feit það gera kýrnar og kindurnar líka. Ég hygg að flestir og næstum allir geri sitt besta samt er það sárt að á hverju ári koma upp vandamál af þessum toga. Upplýst umræða fræðsla og samráð kemur í veg fyrir slysin ásamt skýrum lögum og inngripi sem á að stöðva illa meðferð á búfé og landi.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is