Það er vissara að tryggja sér miða strax á Karlakvöldið í Þingborg föstudaginn 6. maí nk. Sleipnismenn og góðir gestir þeirra ætla að slá undir nára þetta kvöld og fylla Þingborg af lífsglöðum körlum til styrktar reiðhöllinni. Ekki kæmi mér á óvart að kjarkmiklar hestakonur klæði sig upp í karlmannsbúning og verði í salnum. Ég hef sannfrétt að kallar hafi verið á þeirra kvöldi á Selfossi og staðið sig vel.

Frétti eftirfarandi sögu frá leigubílstjóra, þetta kvöld var hann kvaddur að húsi einu, út kom forkunnar fögur nunna. Leigubílstjóranum varð starsýnt á hana. Hún sagði, afhverju horfirðu svona á mig? Ég á mér leyndan draum sagði hann sem ég þori ekki að nefna. Jú, jú, þegar maður er kominn á minn aldur sagði nunnan er allt í lagi að láta það flakka. Jæja þá, mér finnst þú svo falleg mig hefur alltaf langað að kyssa nunnu. Ég set tvö skilyrði sagði hún þú verður að vera kaþólskur og ógiftur. Ég stenst prófið sagði hann. Stoppaðu þá segir nunnan og kysstu mig. Hann gerði það og kyssti nunnuna af innlifun. Þau óku svo áfram þá fór leigubílstjórinn að gráta. Afhverju græturðu barnið mitt spyr hún? Ég hef syndgað var að ljúga og skammast mín ég er lúterskur og giftur. Það er allt í lagi vinur ég var líka að ljúga ég er enginn nunna ég heiti Steindór Guðmundsson bóndi í Hólum og er á leiðinni á skemmtikvöld Sleipniskvenna. Þarna voru þeir nokkrir strákar þar á meðal Sverrir bróðir sem býr yfir mestum kvenlegum fríðleika af okkur bræðrum. Karlakvöldið í Þingborg verður stórbrotið, veislustjórinn mun standa sig og uppboðsstjórinn verður ekki síðri. Þá verður ræðumaðurinn ekki af verri endanum sjálfur Gísli Einarsson fréttamaður eða Gísli í Landanum sem er besti uppistandari landsins í dag. Gísli er af Mýrarmannaætt, þessvegna lítur hann svona út. Gísli er vel gefinn og óvenju skemmtilegur og litríkur fréttamaður þó hann sé oft út og suður. Enginn íslendingur stenst honum snúning á karlakvöldi. Við verðum að fyrirgefa þetta útlit, þeir Kveldúlfur, Skallagrímur og Egill voru ekki smáfríðir. Hinsvegar var Helga fagra einstök, eins og konur eru af þessari ætt. Annars eru þeir Gísli Einarsson og Magnús Hlynur uppáhalds fréttamennirnir mínir, þeir eru báðir með öðruvísi fréttir, þær snúast um fólk og koma beint frá hjartanu, nú eru þeir uppi í horninu félagarnir. Labbi okkar frá Glóru mun halda uppi glórulausu fjöri framá nótt. Svo kemur Árni Johnsen með gítarinn og arnarklóna, það hefur enginn við honum í brekkusöng. Kallakvöldið í Þingborg verður hlaðið orku, þangað eru allir velkomnir allsstaðar að. Ég heyri að vinnufélagar og vinir séu að taka sig saman og ætli að skemmta sér þarna. Maturinn, maður lifandi namm namm, humar í forrétt og lambalæri með sósu og kartöflum í aðalrétt. Það verður meistarakokkur á bak við eldavélina í Þingborg þetta kvöld þó að Gunni kokkur og Ole Olsen verði bara í salnum, eigi einu sinni frí frá kokkaríinu. Eiríkur Þór í hinu heimsfræga Fjöruborði sér um steikina. Svo verður happdrætti og boðnir upp folatollar og jafnvel gæðingar. Skemmtun og kvöld aldarinnar er framundan hestamenn og ekki hestamenn sem koma einnig á, sjáumst.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is