Karlakvöldið í Þingborg gekk vel það ríkti stemning og fjör stórt hundrað hraustra manna mætti til leiks. Félagsleg og fjárhagsleg staða Sleipnis er betri eftir þetta kvöld. Það ber að þakka þeim félögum sem fyrir hátíðinni stóðu, þeim sem gáfu mat, vistir, folatolla og happdrættisvinninga til leiksins. Þeim sem fram komu  og skemmtu mönnum en ekki síst þessum hraustu mönnum sem tóku á því þetta kvöld. Mér er sagt að stemningin hafi verið það góð að hátt í hundrað hestamenn mættu í grillið og sönginn í Kríunesi.

Daginn eftir borðuðu grillað lamb hjá Herði bónda og hlustuðu á Labba syngja á heimavelli. Fjörið heldur áfram og nú sé ég að Sleipniskonur halda í reiðtúr um Ölfusið á laugardaginn kemur, ætla að fara um góðu reiðvegina þar. Leggja upp frá Páli dýra sem mun blimskakka á þær augunum og segja eitthvað skemmtilegt þekki ég hann rétt. Vikan hefur verið dýrðleg kynbótasýningar í fyrsta sinn á Brávöllum þannig að aðstaðan og styrkur Sleipnis  dregur atburðina til sín. Þórdís og hennar baráttusveit getur glaðst yfir þróuninni. Landbúnaðarháskólarnir að Hvanneyri og Hólum gegna mikilvægu hlutverki í menntun og vísindum bæði hvað búpeninginn varðar og ekki síður í að mennta og efla vaska vísindamenn í „stígvélum.“ Vísinda og fræðimenn sem standa úti á akrinum eða í mýrinni eða í gripahúsinu eru af lífi og sál með bændum og búaliði og ræða um ný tækifæri. Að vera ráðunautur er lifandi starf og engu líkt þar getur vaktin verið löng eins og búvísindamennirnir okkar þekkja. Jónatan Hermannsson frá Galtalæk í Biskupstungum er dæmi um vel heppnaðan ráðunaut og vísindamann hann tekur sólarhæðina á mörgum  kornakrinum, áður en bændur vakna. Ágúst Sigurðsson rektor LBHÍ hefur með einstökum hæfileikum sínum styrkt skólann og horft til verkefna sem eru brýn, enda nemendafjöldinn kominn í 555 manns. Ég sá að margir voru að útskrifast úr tveggja ára námi í „Reiðmanninum,“ fólk af öllum stéttum og stigum samfélagsins sem vildi vita meira og læra um hestinn og fullnuma sig í áhugamálinu eða búgreininni. Hinn kunni reiðmaður Reynir Aðalsteinsson hefur stýrt þessu fjarnámi frá Hvanneyri, námið er bóklegt og verklegt það er unnið með reiðkennurum um allt land. Sleipnismenn ættu að heita á sig að fá námskeið í höllina næsta vetur. Hólaskóli er með langskólanámið í hrossafræðunum en þarna vantaði að fylla uppí glufu og það var vel gert hjá Ágústi og hans mönnum að grípa þetta tækifæri. Nú hefur Ágúst beitt sér fyrir stofnun hollvina LBHÍ um Hvanneyri og Reyki mynda öfluga bakvarðarsveit nemenda og velunnara skólans. Ég tók að mér formennsku í félaginu sem gamall nemandi. Ég vil hvetja alla áhugamenn um landbúnað og vísindi í sem víðustum skilningi svo ekki sé talað um gamla og nýja nemendur skólanna að gerast Hollvinir. Skráðu þig til að fá fréttir á netfang: askell@lbhi.is.

Guðni Ágústsson
gudni.ag@simnet.is