Vígsla Sleipnishallarinnar laugardaginn 26. maí nk.
Sleipnismenn ætla nú að vígja Reiðhöllina sína, Sleipnis höllina við Brávelli á laugardegi til lukku hinn 26. maí nk. Taktu frá daginn hvort sem þú ert hestamaður eða ekki. Þennan dag mun hófadynur nálgast Selfoss úr öllum áttum gert er ráð fyrir eitt þúsund hestareið. Aldrei í sögunni munu jafn margir ríðandi menn stefna til hátíðar á Selfossi nema ef vera skyldi að vígslu Ölfusárbrúar 1891. Menn munu nú koma úr öllum áttum Sleipnismenn svo og fólk og vinir Sleipnismanna úr nágrannasveitum af höfuðborgarsvæðinu svo og Ölfusingar, Hvergerðingar, uppsveitamenn, Rangæingar og Skaftfellingar.
Það verður einstök héraðshátíð á Selfossi þennan dag og fylkingin mun ríða Austurveginn skrýddan fánum undir vernd lögreglunnar og sýslumannsins Ólafs Helga Kjartanssonar. Eitt þúsund hestar og hestamenn munu síðan ríða í gegnum reiðhöllina og þaðan inn á Brávelli. Stutt skemmtidagskrá verður á Brávöllum og síðan vígslan í reiðhöllinni sjálfri, vertu með eins og krakkarnir segja. Þar syngur Karlakór Selfoss og fram fer hátíðleg vígsluathöfn. Nýr formaður Kjartan Ólafsson fyrrv. alþm. fer fyrir liði Sleipnismanna en nærri honum verða fyrrv. formenn Guðmundur Lárusson og Þórdís Ólöf Viðarsdóttir og formaður bygginganefndar Karl Þór Hreggviðsson. Kjartan er vel að formennskunni í Sleipni kominn afi hans Jón Pálsson dýralæknir var einn af öflugustu félagsmálamönnum hestamennskunnar á síðustu öld bæði í Sleipni og á landsvísu. Ef fólk ekki gerir sér grein fyrir því hverju reiðhöllin hefur þegar áorkað er rétt að nefna nokkur atriði. Hún er þegar búin að valda byltingu í hestamennsku Sleipnismanna og héraðsins. Selfoss sem liggur miðsvæðis er miðja eða nýtt hásæti íslenska hestsins, aðstaðan og staðsetningin er slík. Gaddstaðaflatir við Hellu eru eigi að síður okkar glæsilega landsmótssvæði. Nú er rétt að rifja upp nokkur verkefni nýafstaðin og hvað er framundan. Í reiðhöllinni sjálfri hafa námskeið og viðburðir verið tíðir og þessi kennslustofa í reiðlist í notkun alla daga og ekki síst um helgar. Brávellir þessi góði sýningarvöllur hefur öðlast nýtt gildi og á fáum stöðum er meira að gera í hestamennsku en þar. Ný lokið er Hestafjöri. Þar voru ungmenni af Suðurlandi öllu að keppa og sýna og um 350 áhorfendur. Stóðhestasýning fór fram á vellinum og eitt þúsund gestir mættu. Opna WR íþróttamótið fór fram með 250 þátttakendum, alþjóðlegum dómurum og stemningu. Kynbótasýningu er að ljúka þar sem 440 hross voru sýnd og dæmd. Um helgina framundan ríða Sleipnismenn til strandar að gömlum sið í Stokkseyrarfjöruna. Föstudagskvöldið 25 maí verður karlakvöld í Þingborg það var óvenju magnað í fyrra, takið kvöldið frá strákar. Stundum veltir lítil þúfa stóru hlassi eða lítill blossi kveikir stórt bál. Haustið 2009 tók öldungurinn og heiðursfélaginn Guðjón í Uppsölum fyrstu skóflustunguna að reiðhöllinni og gaf jafnframt eina milljón til verkefnisins. Sleipnisfélagar og velunnarar létu ekki sitt eftir liggja, gáfu sjálfboðavinnu afl sitt og áræði. Margir keyptu hlutabréf gáfu peninga og efni til verksins. Nú er reiðhöllin fullbúin og vígsla framundan. Láttu þig ekki vanta á þessa hátíð, vígsluna sjálfa. Hér fyrir neðan er formaðurinn Kjartan Ólafsson á hesti sínum Kolbaki.
Guðni Ágústsson