Aðalfundur Hestamannafélagsins Sleipnis haldinn í Hlíðskjálf fimmtudaginn 12. febrúar 2009, kl. 20:30. Guðmundur Lárusson formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Stungið var uppá Sigurði Sigurjónssyni sem fundarstjóra og Torfa Ragnari Sigurðssyni sem ritara, var það samþykkt.    Skýrsla stjórnar: Guðmundur Lárusson formaður las skýrslu stjórnar og fer yfir helstu atriði ársins í starfi stjórnar. Skipun stjórnar: Guðmundur fer yfir að um hafi verið að ræða mikla endurnýjun í stjórn félagsins.  Fjármál: Guðmundur gerir fjármál félagsins að umfjöllunarefni sínu. Skuldir félagsins hafi verið of miklar. Guðmundur fjallar um að skuldir félagsins hafi verið tvíþættar. Annars vegar hafi verið um að ræða skuldabréf sem hafi verið tilkomið vegna framkvæmda við reiðvöllinn á sínum tíma, sem augljóslega fór langt fram úr fjárhagsáætlunum og hins vegar yfirdráttur í banka og lausaskuldir hvers konar. Stór hluti af störfum stjórnar hefur farið í að reyna að kortleggja stöðuna og síðan að leita lausna. Gerður var samningur við Landsbanka Íslands og eru allar skuldir í dag umsamdar og á skuldabréfum til langs tíma. Staðan á mannvirkjum félagsins: Næst víkur Guðmundur að mannvirkjum félagsins. Hann vísar til þess að völlur félagsins hafi verið nánæst ónothæfur. Sérstakir tilsjónarmenn voru fengnir til að sinna vellinum og var hann lagaður talsvert. Borið var í brautir og þær heflaðar, girðingar lagaðar og settar upp fánastengur við inngang. Guðmundur gerir grein fyrir fundi sem hann átti með  fulltrúum framkvæmdasviðs Árborgar. Á þessum fundi kom fram sameiginlegur skilningur beggja aðila um að Árborg ætti eftir að fullnusta samning sem gerður var um vallarsvæðið, þar sem kveðið var á um að sveitarfélagið ætti að sjá um allan frágang á svæðinu. Unnið hefur verið að því undanfarið ár að fullnusta þennan samning. Guðmundur lýsir ákveðinni ánægju með völlinn og telur að aðstæður séu góðar. Því næst víkur Guðmundur að þeim gerðum sem eru í eigi félagsins og telur hann ásigkomulag þeirra vera ábótavant. Guðmundur kemur á framfæri þökkum stjórnar til þeirra kvenna sem tóku það upp sjálfar að laga gerðið við Hlíðskjálf og gera það nothæft. Guðmundur upplýsir að megin ástæða þess að ekki er búið að endurbyggja gerðið er að gerð var krafa um að snúa því, svo að það tæki ekki yfir tvær byggingarlóðir. Hins vegar eru litlar líkur á því að byggt verði á lóðunum nú á næstunni og ætti því að vera hægt að fá leyfi til að endurbyggja gerðið á núverandi stað.   Því næst víkur Guðmundur að ástandi Hlíðskjálf. Telur hann að það þurfi að mála og skipta um klæðningu á veggjum að hluta. Guðmundur tekur fram að húsnæðið skaffi félaginu nokkrar tekjur sem byggist á því að í hússtjórn eru ötular konur sem leggja svo sannarlega sitt af mörkum fyrir Sleipni. Guðmundur tekur fram að stjórnin hefur haldið að sér höndum í hverskonar fjárfestingum meðan verið var að ná tökum á fjármálum félagsins.  Reiðvegamál: Næst fjallar Guðmundur um reiðvegamál og telur hann ástandið með öllu óviðunandi. Guðmundur fer yfir reiðvegaáætlun sem unnin var í reiðveganefndar. Reiðveganefnd hefur á árinu unnið með fulltrúum meirihluta sveitarstjórnar að áætlun um lagningu reiðvega innan sveitarfélagsins sem ekki eru meðfram akvegum, alls um 16 km á árunum 2009-2012 fyrir alls um 83 milljónir kr. Guðmundur tekur fram að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 er ekki gert ráð fyrir því að standa við þetta samkomulaf vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Guðmundur fer yfir reiðvegaáætlun á glæru.  Guðmundur tekur fram að stjórn Sleipnis stefnir að því að halda opinn fund með öllum bæjarfulltrúum til að ræða stöðu hestamennsku í Árborg, reiðvegi og reiðhöll, Guðmundur skorar á félagsmenn að fjölmenna á þann fund. Firmakeppni: Guðmundur fjallar um að firmakeppnisnefnd hafi tekist að margfalda innkomuna vegna keppninnar í fyrra. Guðmundur telur að búið sé að ná utanum skipulag bikara en einhver lausung hafði verið á því og bikarar jafnvel ekki afhentir sigurvegurum. Þjónustusamningur milli fjölskyldumiðstöðvar Árborgar og Sleipnis: Guðmundur fjallar um að í árslok hafi verið undirritaður samningur milli Fjölskyldumiðstöðvar Sveitarfélagsins Árborgar og Sleipnis til tveggja ára um framlag Árborgar til æskulýðsmála. Þar var um að ræða hækkun á fjárframlagi en að auki fjallar samningurinn um nánara samstarf samningsaðila. Guðmundur tekur fram að Sleipnir stefnir að því að verða fyrirmyndarfélag samkvæmt kröfum ÍSÍ á árinu.  Guðmundur fjallar um að viðræður hafi staðið yfir við Flóahrepp um samstarf og fjárstuðning Flóahrepps við Sleipni en allnokkur fjöldi félagsmanna kemur úr Flóahreppi en þaðan hafa ekki komi framlög hingað til. Niðurstaða hefur ekki fengist í þær viðræður.  Æskulýðsnefnd: Guðmundur fjallar um að á vegum æskulýðsnefndar hafi verið haldin reiðnámskeið fyrir börn og ungmenni. Guðmundur fjallar um að námskeiðið hafi verið haldið í veglegri aðstöðu þeirra Hauks og Röggu. Fundargestir þakka þeim heiðurshjónum með lófaklappi fyrir að leggja til aðstöðuna endurgjaldslaust ásamt hvers konar stuðningi Toyota á Selfossi við Sleipni. Kennari á reiðnámskeiðinu var Elsa Magnúsdóttir.  Guðmundur fjallar í stuttu máli um framhald starfsins á þessu ári. Þá fjallar Guðmundur um störf mótanefndar en á vegum hennar voru haldin hefðbundin mót. Heimasíða: Guðmundur tekur fram að heimasíða félagsins hafi verið orðið barn síns tíma og því hafi verið ákveðið að endurgera hana. Vefsíðustjóri sem hefur yfirumsjón með síðunni er Gunnar Jónsson.   Reiðskemma: Guðmundur fjallar í stuttu máli um félagsfund þann sem haldinn var í Hlíðskjálf 11. janúar 2007 þar sem stjórn var falið að kanna möguleika á að reisa og reka reiðskemmu sem hýsti löglegan keppnisvöll. Stjórn Sleipnis skipaði nefnd til að framfylgja samþykkt félagsfundar. Stofnað var hlutafélagið Íslandshof ehf. og lagði Sleipnir til 25% hlutafjár. Því næst fjallar Guðmundur um störf Íslandshofs ehf.  Guðmundur fjallar um að þann 20. október 2008 hafi stjórn Sleipnis borist bréf frá Rangárhöllinni ehf. þar sem viðruð var sú hugmynd að Sleipnir ráðstafi framlagi ráðuneytisins til að kaupa hlut í Rangárhöllinni eða með annars konar ráðstöfun umræddra fjármuna til Rangárhallarinnar og þá til lengri eða skemmri tíma.  Guðmundur fjallar um bréf ráðuneytisins þess efnis að félagið hefur nú frest til 6. mars n.k. til að taka afstöðu til þess hvort félagið hyggist nota framlag ráðuneytisins.  Guðmundur fjallar næst um að fyrir liggi drög að samningi milli Sveitarfélagsins Árborgar og Hestamannafélagsins Sleipnis þar sem kemur fram að Sveitarfélagið Árborg mun leggja félaginu til lóð ásamt niðurfellingu byggingarleyfisgjalda, gatnagerðargjalda og tengigjalda vatns og hitaveitu. Þá fjallar Guðmundur um að borist hafi óformleg tilboð í skemmu af stærðinni 25x45 metrar.  Tillaga frá síðasta aðalfundi: Eftirfarandi tillaga var lögð fram á síðasta aðalfundi;  Aðalfundur Hestamannafélagsins Sleipnis, haldinn í Hliðskjálf 8. Febrúar 2008 felur stjórn félagsins að taka til skoðunar hvort Hestamannafélagið Sleipnir eigi að draga sig út úr hlutafélaginu Rangárbökkum ehf. og leggja fram álit þar að lútandi á næsta aðalfund félagsins, árið 2009. 

Guðmundur gerir því næst grein fyrir niðurstöðu stjórnar en hún er sú að stjórn telur að engar sérstakar ástæður séu til staðar til þess að draga sig útúr hlutafélaginu þó fjárhagsstaða þess sé afar bágborin. Ljóst er að verðmæti hlutabréfa í Rangárbökkum er lágt eða réttara að segja  þau verðlaus og því varla söluvara miðað við núverandi aðstæður. Hins vegar ef það er skoðun aðalfundar nú að Sleipnir eigi að draga sig út úr hlutafélaginu, þá væntanlega með því að bjóða öðrum eigendum hlutabréfin á hrakvirði eða að hreinlega gefa þau þá er ákveðin niðurstaða en stjórnin mun ekki hafa frumkvæði að því.

 Allar nefndir: Guðmundur bendir á að rætt hafi verið við alla þá sem tilnefndir hafi verið í nefndir og þeir gefið samþykki sitt og eru tilbúnir að vinna fyrir félagið. Guðmundur fjallar um að án virkra félagsmanna er félagið veikt og þar er alfarið í höndum félagsmanna hvernig félaginu reiðir af. Guðmundur bendir á að hinn almenni félagsmaður verður líka að taka til hendinni. Guðmundur fjallar því næst um framtak Rutar Stefánsdóttur, Ingibjargar Stefánsdóttur og Margrétar Ásgeirsdóttur en þær komu á kvennakvöldi sem var haldið fyrir fullu húsi og tókst í alla staði frábærlega vel afraksturinn af skemmtuninni afhentu þær svo félaginu.  Guðmundur þakkaði því næst Steindóri Guðmundssyni fyrir að hafa gengt formennsku í mótanefnd og Sigurði Grímssyni fyrir formennsku í ferðanefnd.  Sleipnir 90 ára: Guðmundur minnti fundargesti á að á árinu yrði Sleipnir 90. ára. Guðmundur gerði grein fyrir skipan afmælisnefndar en hún verður skipuð fyrrverandi formönnum.  Að lokum þakkar Guðmundur stjórn og nefndum og svo öllum fyrir góð samskipti og samstarf á árinu.  Reikningar félagsins: Þórdís Ólöf Viðarsdóttir gjaldkeri kynnti reikninga félagsins og efnahagsreikning.  Umræður um skýrslur og ársreikning félagsins. Fundarstjóri opnar umræður um skýrslu og ársreikninga félagsins og lýsir orðið laust. Haraldur Þórarinsson kemur upp og þakkar stjórninni fyrir vel unnin störf. Hann telur að spýta eigi í lófana með uppbyggingu reiðhallar. Hann hvetur félagið til að reyna að ná samningum við sveitarfélagið um uppbygginu. Haraldur telur að bygging reiðhallar skipti miklu máli fyrir æskulýðsstarfið. Haraldur minnir á að það væri engin atvinnugrein í hestamennsku ef að ekki væri fyrir hestaíþróttina. Haraldur brýnir félagsmenn til að standa vörð um félagið.  

Eftirfarandi fyrirspurnir koma úr sal;

1)      Hver sé kostnaður reiðhallarinnar.

2)      Almenn fyrirspurn um framkomin tilboð í reiðhöllina.

3)      Hver séu áform í reiðvegamálum núna næstu tvo vetur.

4)      Hvort unnið hafi verið úr styrkjum frá LH til reiðvegamála.

5)      Stærð reiðskemmunnar.

6)      Hvort sótt hafi verið um niðurfellingu á fasteignagjöldum Hlíðskjálf.

 Guðmundur Lárusson formaður tekur til máls og svarar fyrirspurnum. Varðandi kostnað reiðhallar þá telur Guðmundur að það fari töluvert eftir því hvað við getum sjálf lagt að mörkum. Allt í allt mun svona hús kosta 15-20 milljónir, auk framkominna tilboða. Guðmundur telur að þetta geti kostað okkur í heildina eitthvað um 35 millj. Guðmundur tekur fram að stjórn hafi ekki enn auglýst sérstaklega eftir tilboðum. Ýmsir aðilar vita af þessum 25 millj. þau fyrirtæki sem hafa haft samband eru Hýsi, Landstólpi og Límtré. Fleiri aðilar hafa haft samband og lýst yfir áhuga á verkefninu. Húsið sem við erum að tala um er með velli sem er 20x40. Varðandi reiðvegamál telur Guðmundur að fátt sé um svör. Málið leit vel út þar til fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar leit dagsins ljós. Mikil vonbrigði eru að ekki væri að finna fjárframlög þar. Guðmundur telur að þetta séu spurningar sem rétt er að beina að sveitarstjórn. Varðandi styrki LH tekur Guðmundur fram að stjórn viti ekki betur en að það sé allt í góðu lagi.  Þórdís Ólöf Viðarsdóttir gjaldkeri svarar fyrirspurn vegna niðurfellingar fasteignagjalda. Þórdís svarar því til að slíkt hafi verið gert en svar hafi ekki enn borist.   Fundarstjóri óskar eftir því næst eftir því að reikningar og skýrslur verði samþykktar. Reikningar félagsins og skýrslur bornar upp til samþykktar og er hvort um sig samþykkt. Aðalfundur samþykkir jafnframt skoðunarmenn reikninga.   Afhending bikara:

Freyja Hilmarsdóttir sér um að afhenda bikara.

1)      100 m skeið Sigursteinn Sumarliðason.

2)      150m skeið Sigurður Óli Kristinsson.

3)      250m skeið Einar Öder Magnússon.

4)      Íþróttamaður Sleipnis. Arnar Bjarki Sigurðsson. Guðmundur Lárusson gefur þann bikar.

5)      Ræktunarbikar Sleipnis. Brynjar Jón Stefánsson með hestinn Vignir frá Selfossi.  Þá veitir Guðmundur Lárusson formaður, Steindóri Guðmundssyni og Sigurði Grímssyni blómvendi fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.   

Kaffihlé: Tekið er 15 mín kaffihlé.

 Að því loknu þá minnir fundarstjóri á dósasöfnun félagsins, en dósasöfnun á sér stað á planinu hjá Hlíðskjálf og rennur andvirðið til æskulýðsstarfs félagsins.  

Tillögur bornar upp af fundarstjóra: Tvær tillögu bornar upp.

 Fyrri tillagan varðandi breytingar á félagsgjöldum er svohljóðandi;„Aðalfundur Hestamannafélagsins Sleipnis haldinn að Hliðskjálf þann 12 febrúar 2009 samþykkir eftirfarandi breytingu á félagsgjöldum félagsins.“ 
 Það sem er nú í gildiÞað sem verður
12 ára og yngri frítt16 ára og yngri frítt
13 - 16 ára 1000 kr.17-20 ára 2500 kr.
17 - 20 ára 2000 kr.21-67 ára 5500kr
21 - 67 ára 5000 kr.67 ára og eldri frítt
68 ára og eldri frítt.Hjónagjald 9500kr
Hjónagjald 8500 kr. 
  

Tillaga þessi borin upp til samþykktar og samþykkt einróma.

 

Seinni tillagan varðandi uppbyggingu reiðhallar á Brávöllum er svohljóðandi;

Fyrir liggur loforð Sjávar- og landbúnaðarráðuneytis um 25 milljón kr. framlag til byggingar reiðskemmu sem greiðist þegar húsið er fokhelt. Þá liggja fyrir drög að samningi milli Sveitarfélagsins Árborgar og Hestamannafélagsins Sleipnis, þar sem kemur fram að Sveitarfélagið Árborg mun leggja félaginu til lóð, ásamt niðurfellingu byggingarleyfisgjalda, gatnagerðargjalda og tengigjalda vatns og hitaveitu. Aðalfundurinn samþykkir að fela stjórn að leita leiða til að byggja og reka reiðskemmu. Áætluð stærð verði u.þ.b. 25x45 metrar. Jafnframt heimilar fundurinn að stofnað verði eða keypt sérstakt eignarhaldsfélag sem standa mun að framkvæmdinni. 

Haukur Baldvinsson tekur til máls og spyr hvort að félagsaðstaðan yrði í því húsi. Guðmundur Lárusson formaður svarar fyrirspurninni og áréttar að núverandi aðstaða er of langt frá vellinum. Guðmundur segir að þetta verði allt tekið til skoðunar.

 

Bragi Sverrisson spyr hvort að stjórn vilji ekki kanna hvort að sveitarfélagið vilji kaupa Hlíðskjálf og við myndum byggja húsnæði við völlinn. Guðmundur Lárusson formaður svarar því til að það verði tekið til skoðunar.

 

Tillagan borin upp til samþykktar og samþykkt einróma.

 

Kosning stjórnar og tilnefningar til nefnda:

Byrjað er á því að kjósa í stjórn. Upplýst er að Guðmundur Stefánsson og Torfi Ragnar Sigurðsson hafa lokið stjórnarsetu sinni en þeir voru á sínum tíma kosnir til tveggja ára. Guðmundur Stefánsson gefur ekki kost á sér á ný en Torfi Ragnar Sigurðsson gefur kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Óskað er eftir framboðum í stjórn og lýsir Karl Hreggviðsson því yfir að gefi kost á sér í stað Guðmundar.

 

Karl Hreggviðsson og Torfi Ragnar Sigurðsson eru kosnir í stjórn með einróma samþykki. Skoðunarmenn eru þeir sömu og síðast.

 

Tilnefningar í nefndir á vegum félagsins eru samþykktar einróma.

 

Önnur mál: Þórdís Ólöf Viðarsdóttir stígur í pontu og gerir grein fyrir fyrirhugaðri Fjölskylduhátíð á Rangárbökkum. Þórdís og Reynir Þór sóttu undirbúningsfund þar sem fyrirhuguð fjölskylduhátíð var kynnt. Á þeim undirbúningsfundi var skipað í 5 manna undirbúningsnefnd sem á að kanna möguleikann á að halda slíka hátíð. Undirbúningsnefndin er enn að störfum.

 Haraldur Þórarinsson tekur til máls og óskar eftir því að fundurinn semji tillögu eða ályktun um að hvetja Fjölbrautarskóla Suðurlands til að standa vörð um hestabraut skólans.  

Eftirfarandi ályktun lögð fram; „Aðalfundur Sleipnis haldin 12. febrúar 2009 í Hlíðskjálf skorar á Fjölbrautarskóla Suðurlands að standa vörð um hestabraut þá sem rekinn er við skólann og þróa hana áfram. Þá skorar fundurinn á sveitarfélagið Árborg að taka virkan þátt í uppbyggingu náms í hestaíþróttum í grunnskólum sveitarfélagsins.“

 Framangreind tillaga var borin upp til samþykkis og samþykkt einróma.  Fundarstjóri skorar á aðra viðstadda að taka til máls. Fleiri óska ekki eftir að taka til máls. Guðmundur Lárusson ávarpar fundinn að lokum.  66 manns eru mættir á fundinn og telst hann því löglegur.  Fundi slitið kl. 22:45.