Á stjórnarfundi Sleipnis í gærkvöld var farið yfir stöðuna í ljósi breytinga á sóttvarnareglum sem heimila nú æfingar afreksknapa í reiðhöllum.
LH mun skila skilgreiningu á þeim knöpum sem falla undir leyfi til æfinga í reiðhöllum skv. reglum sóttvarnayfirvalda og er von á henni síðar í dag.
Ljóst er að lokun reiðhalla kemur sér illa fyrir þá sem eru í námi sem krefst æfinga innandyra, þá sem stefna á keppnir á nýju ári og aðra sem nýta reiðhöllina til tamninga og æfinga og höfum við fullan skilning á því.
LH hefur sótt fast að fá undanþágu frá reglum svo mögulegt sé að opna aftur reiðhallir og vonum við að sú vinna skili jákvæðum niðurstöðum í vikunni.
Þangað til niðurstaða fæst, þurfum við að standa saman og hlýða yfirvöldum, hvað sem okkur finnst um þeirra ákvarðanir.
Stjórn Sleipnis vill axla samfélagslega ábyrgð með því að fara eftir sóttvarnareglum og forðast háar sektir sem blasa við þeim sem brjóta reglurnar.
Við biðjum félagsmenn um að standa með okkur í þessu, við sjáum fyrir endann á COVID-19 á næsta ári og getum látið okkur hlakka til.