Eins og ljóst er má reiðhöllin nú vera opin með ákveðnum skilyrðum og verður um takmarkaða opnum að ræða að svo stöddu.
Til að hægt sé að bjóða uppá almenna opnun þarf starfsmaður að vera á vakt þann tíma sem er opið, til að gæta að sérstökum sóttvarnarreglum.
Félagið biðlar því til félagsmanna, líkt og þegar hestamót eru, að bjóða sig fram í sjálfboðastarf í 2-4 tíma í senn ákveðna daga, eða á fasta tíma einhverja daga.
Stefnan er að geta boðið uppá almenna opnun seinnipartinn og fram á kvöld, eða á tímabilinu frá kl 16-22 virka daga, sem og eitthvað um helgar. Tímasetning opnunar fer eftir því hvað næst að manna á lausa tíma. Eins og áður hefur komið fram hafa knapar sem valdir hafa verið í Landsliðið sem og þeir sem kepptu í Meistaraflokki á árinu 2020 heimild til að æfa utan opnunartíma.
Hægt verður að sjá opnunartímann fyrir hvern dag inná heimasíðu sleipnis undir "Reiðhöll dagatal" og fer opunin alfarið eftir því hvernig næst að manna vaktir.

Verið er að klára frágang vegna framkvæmda í reiðhöllinni í dag (laugardag), en fyrirhugað er að geta boðið uppá fyrstu opnun í nokkra tíma á morgun sunnudag eftir að framkvæmdum lýkur og svo áfram eitthvað á hverjum degi til 12. janúar n.k. eða þangað nýjar sóttvarnarreglur verða kynntar.

Í okkar stóra og flotta hestamannafélagi sem Sleipnir er hefur samvinna verið aðalsmerkið í allri uppbyggingu og framkvæmdum sem hefur gert félaginu kleyft að halda hér glæsileg mót, byggt upp mannvirki sem og staðið að ýmsum verkefnum og framkvæmdum í gegnum félgsmenn og nefndir þar sem sjálfboðaliðar fá miklar þakkir fyrir góð og óeigingjörn störf. 

Starfið er einfalt og krefst ekki líkamlegs erfiðis á neinn hátt og eru félagsmenn sem og aðrir sem áhuga hafa á að veita félaginu lið hvattir til um að bjóða sig fram og skrá sig á ákveðna tíma á vakt/vaktir í reiðhöllinni svo hægt sé að bjóða uppá fasta opnunartíma. 
Mikil aukning hefur verið á því að félagsmenn séu með hross á húsi á þessum árstíma og er því gríðarlega mikilvægt fyrir knapa að geta komist í reiðhöllina á æfingar.

Sýnum samtsöðu og gerum þetta saman !

Áhugasamir eru beðnir að senda nafn og símanúmer á stjórn@sleipnir.is og verður haft samband í framhaldinu.

Með bestu kveðu frá sóttvarnafulltrúa og stjórn Sleipnis