Æskulýðsnefnd stóð fyrir óvissuferð á Uppstigningadag. Skráning var góð og fylltum við 30 manna rútu. Dagurinn byrjaði upp úr kl.8 í Hliðskjálf við að hella upp á kaffi, smyrja nesti og ganga frá í lestinni. Við lögðum síðan af stað upp úr kl. 9 og fyrsta stopp var í Hveragerði þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss, tók á móti okkur. Við fengum skemmtilegan og fræðandi fyrirlestur um starfsemina og allir fengu ís að smakka. Síðan var haldið vestur yfir heiðina og rennt í hlaðið hjá Hellisheiðarvirkjun. Þar tók á móti okkur Auður Björg.
Fengum við þar góða leiðsögn og fræðslu um virkjunina, staðinn , sögu hans og ýmislegt fleira. Áfram var haldið og stefnan nú tekin á höfuðborgarsvæðið, áðum í fögrum lundi í Heiðmörk og snæddum nesti en að því loknu töppuðu krakkarnir af smá orku í leikjum.
Af stað var nú haldið en næsti viðkomustaður var Hallgrímskirkja, það var nú eiginlega svona tímajöfnun fyrir þar næsta stopp. Að því loknu lá leiðin í Víðidal þar sem við heimsóttum Sigurbjörn Bárðarson sem tók vel á móti okkur. Áttum þar góða stund og fróðlega, skoðuðum hestakostinn og Diddi sýndi okkur frábæran klár, Penna frá Glæsibæ, sem lék listir sínar fyrir okkur í reiðhöllinni.
Nú var farið að líða á miðjan dag og stefnan tekin suður með sjó, í nágrenni Grindavíkur kíktum við í helli einn góðan, ekki þó þann sem við ætluðum að finna en samt flottan helli. Nú var farið að heyrast í krökkunum að þeim langaði í sund og góð ráð dýr en þó, í næsta nágrenni við okkur var Bláa Lónið og skelltum við okkur þangað.
Þau áttu nú reyndar von á hópnum og var vel tekið á móti okkur. Áttum þar góða stundir í tvo tíma og mikil ánægja með staðinn. Að baðtúrnum loknum var klukkan farin að nálgast hálf-sjö, degi tekið að halla og maginn farinn að segja til sýn.
Við tókum því stefnuna í austur og var Grindavík næsta stopp. Í Salthúsinu var stoppað þar sem allir fengu hamborgara, meðlæti, gos og fararstjórar kaffi á eftir.
Þegar halda átti af stað heimleiðis kom babb í bátinn, rútan fór ekki í gang. Nú voru góð ráð dýr en eftir smá skoðun, nokkur símtöl reddaðist þetta og bíllinn rauk í gang.
Haldið var nú heim á leið enda dagur að kveldi kominn, Ingi Björn hafði tekið gítarinn með og hélt uppi spilamennsku á milli áfangastaða. Það var þreyttur en glaður hópur sem renndi í hlaðið á Hliðskjálf er klukkan var orðin nokkuð gengin í níu í gærkveldi, góður dagur á enda.
Farastjórar í ferðinni voru, Aldís, Gústi, Jóna, Siggi, Anna og Rabbi sem sá um að festa viðburði á filmu.
Myndir úr ferðinni má skoða með því að smella HÉR