Stjórn Sleipnis óskar félagsmönnum, styrktaraðilum og velunnurum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
Árið sem er að líða hefur litast af farsóttinni frægu eins og 2020 en margt hefur þó áunnist hjá félaginu.
Nýr samningur við Árborg var undirritaður í ársbyrjun þar sem styrkir við félagið eru settir í einn samning sem gildir til 2022. Viðbót í nýjum samningi félagsins í janúar var föst fjárhæð til viðhalds og reksturs valla og mótssvæðis. Vallanefnd var efld í kjölfarið með það að markmiði bæta vallasvæði og freista þess m.a. að endurheimta vinsældir kynbótasýninga á svæðinu félaginu til hagsbóta.
Félagið endurnýjaði titil sinn sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ og Ólympíusambandsins með því að vinna nýja handbók samkvæmt uppfærðum kröfum ÍSÍ en sá titill færir félaginu tekjur árlega frá og með 2021.
Æskulýðsnefnd hlaut unglingabikar HSK í fyrra og í ár hlaut nefndin æskulýðsbikar LH, á formannafundi sambandsins í haust, fyrir sitt frábæra og öfluga starf.
Stjórn Sleipnis ákvað í haust að fara af stað með félagshesthús í því skini að bjóða börnum og unglingum, sem ekki hafa aðgang að hrossum og búnaði, að stunda hestaíþróttir allt árið hjá félaginu. Áður höfðum við rekið prufuverkefni með Elísabetu Sveinsdóttur og nýtum þá reynslu áfram með því að flétta það við annað æskulýðsstarf félagsins. Ætlunin er að með aðkomu sveitarfélaganna muni verkefnið standa undir sér en ákveðið var að verja styrk vegna fyrirmyndarfélags titilsins til að koma verkefninu á koppinn. Margir hafa sýnt verkefninu velvilja og lánað búnað og hross. Formaður æskulýðsnefndar, Linda Björgvinsdóttir og Guðbjörg Anna Guðbjörnsdóttir stjórnarmeðlimur hafa unnið saman í að skipuleggja starfið. Guðbjörg Anna kemur inn í þetta með reynslu af sambærilegu verkefni hjá Sörla í Hafnarfirði.
Á þessu ári höfum við sóst eftir að bæta inn í nýjan samning, sem tekur gildi 2022, stuðningi við félagshesthúss verkefnið og aðstoð við kaup á vél til nota til viðhalds í reiðhöll og á vallasvæði og erum við bjartsýn á að umsókn okkar verði samþykkt í fjárhagsáætlun Árborgar.
Sett var á fót Skipulagsnefnd Sleipnis til að vinna með skipulagsyfirvöldum heildstæðu deiliskipulagi og rammaskipulagi fyrir hestaíþróttir á svæðinu og munu 5.8 ha. lands, sem bættust við félagssvæðið í ár, vera inni í þeirri vinnu.
Viðrunarhólfanefnd tók til starfa á árinu og mun halda áfram að girða græn svæði sem eru innan svæðis félagsins og leigja til félagsmanna. Stjórn félagsins gerði samkomulag við sveitarfélagið árið 2020 um yfirráð yfir lóðum og auðum svæðum innan félagssvæðisins og er ætlunin að nýta þau til fjáröflunar fyrir félagið og hagsbóta fyrir félagsmenn. Óheimilt er að girða eða nýta þessi svæði án leyfis frá nefndinni.
Stjórn Sleipnis blés til þrifnaðardags með stuttum fyrirvara í haust og var reiðhöllin þrifin af þeim félagsmönnum sem gátu ljáð hendi. Ákveðið var, í samráði við stjórn Sleipnishallar, að hafa þrifnaðardag reiðhallar reglulega á dagskrá félagsins.
Unnið er að undirbúningi við uppsetningu á nýju aðgangskerfi í reiðhöll, þar sem ekki er hægt að uppfæra gamla kerfið og verður hurð á viðbyggingu bætt inn í það kerfi.
Hjá stjórn Sleipnishallar er í vinnslu að lagfæra spegla sem eru fyrir í höllinni og bæta við fleirum á þá staði sem vantar auk þess sem stjórnin áformar að ljúka við lokafrágang á klæðningu viðbyggingar í vetur.
Fundir hafa verið haldnir á árinu með Vegagerðinni og skipulagsyfirvöldum í Árborg og Flóahreppi í því skini að bæta útreiðaleiðir frá hesthúsahverfinu og minnka slysahættu. Vegagerðin er að skoða að setja þrengingu á Gaulverjabæjarveg (eins og er fyrir ríðandi umferð við Hvolsvöll) þar sem reiðvegur liggur yfir veginn í dag eða örlítið norðar. Reiðveganefnd mun koma að því að færa til og skipuleggja aðkomu reiðvega, beggja vegna akvegar, að fyrirhugaðri þrengingu.
Upplýst hefur verið að Gaulverjabæjarvegur frá Suðurhólavegi að Larsenstræti verður ekki aflagður eða færður heldur er ætlun Árborgar að breyta veginum í innanbæjarveg og lækka hámarkshraða niður í 50km á ofangreindum kafla.
Sveitarfélagið Árborg er að skoða leiðir til að færa núverandi reiðveg meðfram Gaulverjabæjarvegi fjær veginum í samvinnu við Vegagerðina og Reiðveganefnd Sleipnis.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni gerir aðalskipulag Flóahrepps ráð fyrir mislægum vegamótum Hringvegar og Austurvegar inn í þéttbýlið á Selfossi. Á aðalskipulagi Flóahrepps er gert ráð fyrir undirgöngum undir Hringveg 1, austan við áðurnefnd vegamót.
Á öðru tímabili samgönguáætlunar er gert ráð fyrir framkvæmdum við aðskilnað akstursstefna fyrir Hringveg frá Selfossi að Skeiðavegamótum. Vegagerðin telur hagkvæmast að bygging undirganga í samræmi við aðalskipulag verði hluti þeirrar framkvæmdar. Nákvæmari tímasetningar liggja þó ekki fyrir að svo stöddu.
Fram hefur komið, á fundum með vegagerð og fulltrúum sveitarfélaganna, vilji til að tengja fyrirhuguð undirgöng, undir Hringveg 1, með reiðstíg við nýja Ölfusárbrú sem teiknuð er með sameiginlegum göngu, hjóla og reiðstíg. Rætt hefur verið um að tengja reiðstíg vestan ár við reiðstígakerfi Ölfuss með tilheyrandi undirgöngum og reiðstígum en ekki liggur fyrir nánari útfærsla á því.
Stjórn Sleipnis auglýsti eftir verktaka í haust, til að ljúka við að klæða félagsheimilið Hliðskjálf og fékk eitt tilboð í verkið sem var tekið. Með því að ráðast í þetta verkefni vildum við bæta ásýnd hússins og nýta endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem rennur út um áramótin. Frekari framkvæmdir við félagsheimilið eru fyrirhugaðar 2022.
Kær kveðja,
formaður Sleipnis,
Sigríður Magnea Björgvinsdóttir