Kæru félagsmenn Sleipnis, 

ekki hefur tekist að halda aðalfund eða upplýsingafund fyrir félagsmenn vegna samkomutakmarkana en ykkur til upplýsingar vinnur stjórnin m.a. að skipulagsmálum sem tengjast tillögu um aðalskipulagsbreytingu og hefur þegar skilað inn umsögn stjórnar um þá breytingatillögu. Í framhaldinu var fundað með skipulagsfulltrúa um reiðvegamál og má finna báðar fundargerðir með því að smella á tenglana í textanum hér að framan.

Á fundi með verkefnastjórn um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins í vikunni kom fram að hesthúsahverfið er á sínum framtíðarstað og góður vilji er til að styðja við uppbyggingu þess þar.

Í breytingatillögu á aðalskipulagi Árborgar er lagt til að minnka framtíðarsvæði hestamannafélagsins um 5,8ha og í því ljósi höfum við skoðað aðra möguleika til stækkunar félagssvæðisins í framtíðinni.

Í skoðun er svæði austan Gaulverjabæjarvegar sem mögulegt framtíðarsvæði en það land er í Flóahreppi en í eigu Árborgar. Stjórn Sleipnis sendi erindi til sveitarstjórnar Flóahrepps um mögulega breytingu á aðalskipulagi Flóahrepps í þá veru að svæðið, austan Gaulverjabæjarvegar sem liggur að hesthúsahverfinu og er í eigu Árborgar, yrði skipulagt sem framtíðarsvæði hestamannafélagsins. Fjallað var um erindið í sveitarstjórn sem tók vel í erindið. 

Á fundinum með verkefnastjórn um aðalskipulagsbreytingar í Árborg kom fram vilji kjörinna fulltrúa til að skipuleggja umræddar lóðir sem framtíðar hestaíþróttasvæði en erindi þar um var sent til bæjarfulltrúa Árborgar 18. janúar 2020.   

Reiðvegir hafa verið sérstaklega ræddir í ofangreindu samhengi og þær breytingar sem munu tengjast nýju brúarstæði yfir Ölfusá og hringtorgi inná þjóðveg nr. 1 en hefur ekki fengið endanlega staðsetningu. Í skoðun er að tengja veg frá nýju hringtorgi beint inná Suðurhólaveg sem aftur gerir kleift að afleggja nyrsta hluta Gaulverjabæjarvegar frá Suðurhólavegi að Larsenstræti. Reiðvegurinn okkar sem liggur meðfram Gaulverjabæjarvegi lægi yfir þennan veg og þyrfti að tryggja öryggi á reiðleið þar yfir. Undirgögn eru fyrirhuguð undir þjóðveg nr. 1 í grennd við hringtorgið nýja þar sem reiðvegur lægi að nýju brúnni og áfram yfir ána með möguleika á tengingum inní Grafning og við núverandi reiðleiðir í Ölfusi.

Ofangreint er ykkur til upplýsingar enda verkefnin í vinnslu. Okkar aðkomu að framhaldsvinnu við skipulagsbreytingarnar er óskað enda er félagið stór hagsmunaaðili sem fullur vilji er til að vinna með að lausnum. Næstu skref lúta að því að fá skriflega viljayfirlýsingu um vilja bæjarstjórnar til að tryggja bæði framtíðarsvæði félagsins og fjölbreyttar reiðleiðir. 

Kveðja frá formanni.