Knapi ársins og íþróttaknapi ársins 2020 er Ragnhildur Haraldsdóttir. Ragnhildur náði góðum árangri á Váki frá Vatnsenda og Úlfi frá Mosfellsbæ. Hún varð Reykjavíkurmeistari í fjórgangi og stendur efst á stöðulista ársins í þeirri grein. Ragnhildur var jafnframt valin íþróttaknapi ársins 2020 af LH. 

Gæðingaknapi ársins 2020 er Olil Amble. Olil hlaut æst hæstu einkunn ársins í B-flokki á landinu, 8,66 á Glampa frá Ketilsstöðum sem stóð efstur í B-flokki á gæðingamóti Sleipnis og er skjaldarhafi. 

Efsti hestur A-flokks og nýr skjaldarhafi 2020 er Heimir frá Flugumýri með einkunnina 8,49 í forkeppni og 8,54 í úrslitum. Heimir er undan Herjólfi frá Ragnheiðarstöðum og Hendingu frá Flugumýri en knapi er Sigursteinn Sumarliðason. Ræktendur eru Eyrún Anna Sigurðardóttir og Páll Bjarki Pálsson og eignedur þeir Karl Áki, Snorri og Sigurður Dagur, allir Sigurðarsynir.

Efsti hestur B-flokks og skjaldarhafi 2020 er Glampi frá Ketilsstöðum með einkunnina 8,66 í forkeppni og 8,89 í úrslitum. Olil er knapi og Bergur ræktandi. Þess má til gamans geta að Elin og Frami voru efst í forkeppninni en Framkvæmd frá Ketilsstöðum, móðir Frama er jafnframt móður amma Glampa og báðir eru undan Orrasyni (Sveini-Hervari og Álffinni).

Ræktunarbikar Sleipnis 2020 hlaut Gangmyllan, Olil Amble og Bergur Jónsson fyrir Álfaklett frá Syðri-Gegnishólum, Álfaklettur hlaut í aðaleinkunn 8,94 sem er jafnframt hæsta einkunn kynbótahross árið 2020. Það ætti ekki að koma á óvart að Álfaklettur sé úrvalshross, hann er sonur heiðursverðlauna hryssunnar Álfadísar frá Selfossi sem að honum meðtöldum hefur gefið 12 afkvæmi í 1. verðlaun, þar af 3 heiðursverðlauna stóðhesta. Einstök hryssa hún Álfadís. Faðir Álfakletts er jafnframt heiðursverðlauna hestur sem hefur getið af sér um 120 1. verðlauna hross. Álfaklettur ber því eftirsótt gen.   

Æskulýðsbikar Sleipnis 2020 hlaut Glódís Rún Sigurðardóttir sem stóð sig afburða vel, var í fremstu röð á öllum mótum sem hún tók þátt í og vann þrefalt á Reykjavíkurmeistaramótinu. Glódís Rún er efst á stöðulista ungmenna í V1, T2, V2 og F2. 

Skeið 100m og 250m. Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ fá verðlaun í 100m og 250m skeiði, Þeir fóru 100 metrana á 7,37 sek og 250m á 21,23 sek.

Skeið 150 m. Daníel Gunnarsson hlýtur verðlaun fyrir 150metra skeið sem hann fór á Einingu frá Einhamri 2 á 14,4 sek. 

Félagi ársins 2020 er Magnús Ólason sem hefur árum saman vakað yfir velferð félagsins, bæði sem almennur félagsmaður,nefndarmaður, stjórnarmaður og formaður félasgins. Endalaus elja við framgang verkefna í reiðhöll félagsins, félagsstarf og ýmsum öðrum verkefnum félagsins.