Fréttir frá Stjórn
Sleipnir hefur fengið til afnota spildu í eigu Árborgar, til haustbeitar fyrir félagsmenn. Haginn er staðsettur við svokallaða Eyðimörk, en hún liggur meðfram Eyrarbakkavegi, rétt við bæjarmörkin. Hólfið er einungis ætlað félagsmönnum og er beitin þeim að kostnaðarlausu. Hver og einn að sjá um brynningu og/eða taka sig saman með öðrum. Taka verður tillit til þess hversu lengi beit og tíðarfar leyfir notkun. Sleipnir mun hvorki sjá um gjöf eða brynningu og eru öll hross alfarið á ábyrgð eigenda sinna. Hægt er að nýta hagann nú þegar en gefin verður út sérstök dagsetning þegar fram líður, þess efnis hvenær tæma þarf hagann. Þau hross sem ekki hafa verið sótt fyrir þann tíma verða afhent dýraeftirlitsmanni.
Takmörkuð pláss eru í boði og miðað við að hver umsækjandi sé með að hámarki fjóra hesta. Umsóknir skal senda á netfangið gudbjorg@sleipnir.is þar sem fram skal koma:
Nafn, kt. og símanúmer félagsmanns, fjöldi hrossa og tilgreining á hverju hrossi fyrir sig með IS númeri. Ef hrossið er ekki með IS nr. þarf í þess stað að tilgreina aldur, lit, kyn og önnur sérkenni ef einhver eru. Vinsamlegast athugið að hólfið er aðeins ætlað tömdum hrossum, stóðhestar eru ekki leyfðir.
Stjórnin
Framlenging sérstakra frístundastyrkja fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum
Félags- og barnamálaráðherra hefur framlengt sérstaka frístundastyrki fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum þar sem markmiðið er að jafna tækifæri þeirra til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og verður nú hægt að sækja um styrki út árið 2021. Þá hefur ráðuneytið einnig gengið frá samningi við Abler um að hægt verði að sækja um styrkina með sambærilegum hætti og hefðbundinn frístundastyrk sem sveitarfélögin veita, eða við skráningu barns í íþrótt eða tómstund í gegnum rafrænt skráningarkerfi Sportabler.
Hægt er að sækja sérstakan frístundastyrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2006-2015 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 787.200 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júní 2021. Styrkurinn er 25.000 kr. á hvert barn til áramóta og rúmlega 13.000 börn eiga rétt á styrknum. Stefnt er á að veita sams konar styrk eftir áramót.
Nánari upplýsingar er að finna í frétt á vef Stjórnarráðs Íslands:
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/08/27/Serstakir-fristundastyrkir-ut-arid-og-sott-um-gegnum-Sportabler/
Undirbúningur fyrir Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi hefur staðið yfir síðustu ár og er þetta annað árið í röð sem mótinu er frestað. Mótið átti upphaflega að fara fram á Selfossi um verslunarmannahelgina 2020 í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðin og Sveitarfélagið Árborg.
https://www.umfi.is/utgafa/frettasafn/unglingalandsmoti-umfi-frestad/
Kæru félagsmenn,
þann 24. mars var haldinn aðalfundur Sleipnis fyrir árið 2020 á hótel Selfossi.
Þó ekki hafi verið mikil félagsleg virkni í fyrra var mikið að gerast hjá okkur og má lesa nánar um það í fundargerð og gögnum sem fylgja, m.a. skýrslu stjórnar, skýrslu reiðveganefndar og skýrslu æskulýðsnefndar.
Við hvetjum ykkur til að lesa þessar skýrslur til að vera upplýst um vinnuna sem var og er í gangi og snertir okkur öll.
Það sem var helst á baugi voru framkvæmdir á svæðinu, í Hliðskjálf, sjoppunni og viðbyggingu reiðhallar auk reiðvegagerðar og viðhanlds. Í skýrslu reiðveganefndar eru myndir frá þeim leiðum sem um ræðir í skýrslunni og fróðlegt er að skoða það sem framkvæmt var á síðasta ári.
Skýrsla æskulýðsnefndar ber vitni um mikið starf þeirrar nefndar og gaman að lesa hana.
Skipulagsmálin eru reifuð í skýrslu stjórnar ásamt nýjum samningum við sveitarfélögin Árborg og Flóahrepp. Í samningnum við Árborg bættist við styrkur til viðhalds á vallasvæði félagsins og hefur Vallanefnd verið stækkuð það það að markmiði að auka tekjur félagsins með því að gera vallasvæðið okkar eftirsóknarverðara til kynbótasýninga og keppni. Við fengum jafnframt yfirráð yfir grænum svæðum á félagssvæði og lóðum Árborgar austan Gaulverjabæjarvegar en Skipulags og umhverfisnefnd mun sjá um úthlutun svæða til félagsmanna gegn gjaldi. Þeir sem hafa girt af svæði fá möguleika að leigja það svæði af félaginu en gjald hefur ekki verið ákveðið. Félagsgjald var hækkað í 10.000 kr. fyrir almenna félagsmenn og 5.000 fyrir ungmenni. Gjöld af árgjaldi sem renna til LH(1800 kr.), Horses of Iceland(300 kr.) og Worldfeng(350kr.) samtals 2450 kr. Áfram verður aðgangur að reiðhöll innifalinn í árgjaldi.
Á þessu ári er fyrirhugað að halda áfram með viðhald á félagsheimili, ljúka við klæðningu hússins að utan og huga að þakinu.
Nýjir stjórnarmeðlimir tóku til starfa í stað Önnu Rúnarsdóttur og Grétars Halldórssonar og er þeim þakkað fyrir sín störf í stjórn og varastjórn, sjá nánar í fundargerð aðalfundar.
Við horfum bjartsýn til framtíðar.
Bestu kveðjur, Stjórnin