Fréttir frá Stjórn
LÖG HESTAMANNAFÉLAGSINS SLEIPNIS
1. grein
Félagið heitir Hestamannafélagið Sleipnir og er heimili þess og varnarþing á Selfossi.
2. grein
Markmið félagsins er að efla áhuga á hestum og hestaíþróttum og jafnframt að gæta hagsmuna félaga sinna á því sviði og stuðla að réttri og góðri meðferð hesta. Þessu markmiði hyggst félagið ná með því meðal annars:
- Að eiga og hafa umsjón með vallarsvæði félagsins, efna þar til hestaíþróttamóta, kappreiða og reiðsýninga.
- Að efna til keppni milli hesta í eigu félagsmanna á hverju ári
- Að safna og varðveita sannar sagnir um afbragðshesta og afrek þeirra.
- Að skrásetja sögur um ferðalög félagsmanna á hestum og geyma þær í skjalasafni félagsins.
- Að tryggja að félagið eigi félagsheimili og aðstöðu til iðkunar hestaíþróttarinnar innanhúss og utan.
- Að stuðla að öflugu æskulýðsstarfi.
- Að vera málsvari félagsmanna innan svæðis og utan.
- Að reiðvegir séu gerðir sem víðast og þeim verði ávallt vel við haldið.
- Að vinna að öflugu fræðslustarfi um hestamennsku, hestaíþróttir og önnur málefni á áhugasviði hestamanna, m.a. um uppeldi, tamningu, fóðrun og hirðingu hesta.
3. grein
Félagar geta allir orðið er áhuga hafa á hestum og hestaíþróttum og eru reiðubúnir til þess að hlíta lögum og reglum félagsins. Umsókn skal berast skriflega til stjórnar. Nýir félagar öðlast öll félagsréttindi með greiðslu félagsgjalds. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg.
4. grein
Aðalfundur ákveður árlegt félagsgjald. Félagsmenn bera enga persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins og ber félagið eitt ábyrgð á skuldbindingum sem stofnað er til í nafni þess. Unglingar 16 til 18 ára greiða lægra gjald eftir ákvörðun aðalfundar. Greiðsluseðla skal senda út í byrjun hvers árs. Hafi félagsgjald ekki verið greitt fyrir 15. apríl ár hvert fellur félagi út af félagskrá. Félagar, 70 ára og eldri og 15 ára og yngri greiða ekki félagsgjald. Félagar sem skulda árgjald frá fyrra ári hafa hvorki rétt
til að taka þátt í keppnum á vegum félagsins né réttindi á fundum þess á nýju starfsári, fyrr en þeir hafa greitt skuld sína. Að öðrum kosti falla þeir út af félagaskrá. Brjóti félagi alvarlega af sér gegn lögum og reglum félagsins er stjórn þess heimilt að víkja honum úr félaginu. Brottviknum félaga er heimilt að áfrýja máli sínu til aðalfundar.
5. grein
Stjórn félagsins skipa 5 menn, auk tveggja varamanna. Stjórnin skal kosin á aðalfundi. Kosningu skal haga þannig að formaður sé kosinn til tveggja ára í senn. Aðrir í stjórn skulu kosnir til tveggja ára og skulu þeir úr sínum hópi velja varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda í samráði við formann. Annað árið skal kjósa formann og tvo stjórnarmenn, en hitt árið tvo stjórnarmenn. Varastjórn skipa tveir menn, sem einnig eru kosnir á aðalfundi, til tveggja ára. Sé varamaður kosinn í aðalstjórn, skal kjósa mann til að ljúka hans kjörtímabili. Við kosningu formanns eru allir stjórnarmenn, ásamt varamönnum hlutgengir, en séu þeir kosnir, skal kjósa menn til að ljúka þeirra kjörtímabili. Félagsmaður sem setið hefur í stjórn í eitt eða fleiri kjörtímabil getur, ef hann óskar eftir því, neitað endurkjöri næsta kjörtímabil. Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur yfirumsjón með starfsemi þess. Formaður tekur saman ársskýrslu félagsins. Formaður boðar félagsfundi og stjórnar þeim eða skipar fundarstjóra. Formanni er skylt að boða stjórnarfund ef meirihluti stjórnarmanna óskar þess. Í fundarboði skal tilgreina fundarefni. Ritari geymir bækur og skjöl félagsins og ritar gjörðabók á fundum. Öll önnur skjöl félagsins skulu geymd á aðgengilegan hátt á skrifstofu félagsins. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins. Stjórnarfundir eru lögmætir ef minnst fjórir stjórnarmenn eru mættir á fund. Aðalfundur kýs tvo bókhaldsfróða menn til þess að endurskoða reikninga félagsins.
6. grein
Fundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir eða ef 1/10 - einn tíundi hlutifélagsmanna óskar þess. Aðalfund skal halda í síðasta lagi 31. janúar ár hvert og skal boðað til fundar í almennu héraðsblaði, á heimasíðu félagsins og með tölvupósti til félagsmanna sem sent hafa félaginu tölvupóstfang með a.m.k. viku fyrirvara. Almennan félagsfund eða aðra fundi á vegum félagsins má auglýsa á annan sannanlegan hátt með nægum fyrirvara og skal fundarefni tilgreint. Fundur er lögmætur ef 1/10 -einn tíundi hluti- lögmætra félagsmanna sækir hann. Sé fundur ekki lögmætur, má boða til hans á ný á venjulegan hátt og er hann þá lögmætur án tillits til tölu fundarmanna. Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi, þar sem mættir eru minnst 1/10 -einn tíundi hluti- lögmætra félagsmanna og 2/3 -tveir þriðju hlutar- atkvæða samþykkja lagabreytinguna. Tillögur um lagabreytingar skulu kynntar í fundarboði. Lagabreytingar, sem félagar kunna að vilja bera fram, skulu berast stjórninni fyrir lok desember ár hvert og skulu þær liggja frammi í skrifstofu félagsins og skal geta þeirra í fundarboði.
7. grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu vera aðgengilegir hjá stjórn félagsins, félögum til athugunar, í sjö daga fyrir aðalfund.
Dagskrá aðalfundar:
1. Formaður leggur fram og kynnir skýrslu um störf félagsins á árinu.
2. Gjaldkeri skýrir og leggur reikninga félagsins fram til samþykktar.
3. Kosin stjórn skv. 5.gr.
4. Kosnir tveir skoðunarmenn samkv. 5. gr.
5. Tilnefning í nefndir.
6. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár skal lögð fram.
7. Lagabreytingar (ef einhverjar eru)
8. Önnur mál.
8. grein
Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember.
9. grein
Stjórn félagsins er heimilt að tilnefna heiðursfélaga. Heiðursfélagar geta þeir einir orðið sem sýnt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum til eflingar félaginu og markmiðum þess. Merki félagsins á barmmerki skal fylgja útnefningunni ásamt árituðu viðurkenningarskjali. Reglugerðir um verðlaun og viðurkenningar sem keppt er um á vegum félagsins skulu samdar af stjórn og í samræmi við óskir gefenda verðlaunagripa eftir því sem við verður komið.
10. grein
Reglur um gæðingakeppni, kappreiðar og aðrar hestaíþróttakeppnir skulu vera samkvæmt samþykktum Landsambands hestamanna (LH).
11. grein
Stjórn félagsins ákveður, hvenær hestamót skulu haldin og skipa starfsmenn eftir því sem lög og reglur L.H. mæla fyrir.
12. grein
Heimilt er félaginu að vera aðili að almennum samtökum hestamannafélaga í landinu. Félagið er aðili að HSK, Landsambandi hestamannafélaga og Í.S.Í. Formaður félagsins er sjálfkjörinn á ársþing HSK og L.H. þing. Aðrir fulltrúar félagsins á HSK og L.H. þing skulu tilnefndir af stjórn félagsins.
13. grein
Stjórn félagsins er heimilt að stofna deildir innan þess. Deildir innan félagsins eru bundnar af lögum þess og skal leitað staðfestingar á deildarstofnun og sérlögum deilda á næsta aðalfundi félagsins.
14. grein
Stjórn félagsins er óheimilt að selja fasteignir þess eða veðsetja, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra nema að samþykki lögmæts félagsfundar komi til. Ef stjórn
hyggst leita samþykkis fundar fyrir slíkri ráðstöfun, skal geta þess í fundarboði. Heimildir samkvæmt grein þessari skal nota innan tveggja ára frá því þær eru veittar.
15. grein
Stjórn félagsins ber að fylgjast með skipulagsmálum sveitarfélaga á félagssvæði Sleipnis varðandi reiðvegi/reiðleiðir, gæta í hvívetna hagsmuna félagsmanna og boði til félagsfundar ef um breytingar á skipulagi reiðvega/leiða er að ræða.
16. grein
Stjórn félagsins setur reglur um rekstur félagsheimilis, reiðhallar og annarra eigna félagsins svo og um aðra starfsemi þess jafnóðum og eignir verða til.
17. grein
Ef til þess kemur að leysa þarf félagið upp, verður það að gerast á fundi þar sem mættir eru minnst ¾ -þrír fjórðu hlutar- lögmætra félagsmanna og verður það þá aðeins gjört, að 2/3 -tveir þriðju hlutar- fundarmanna greiði því atkvæði. Að öðrum kosti verður að kalla saman fund á ný og verður félagið leyst upp á löglegan hátt ef 2/3 -tveir þriðju hlutar- fundarmanna greiða því atkvæði án tillits til tölu fundarmanna. Verði félagið leyst upp renna allar eigur þess til HSK.
Samþykkt þannig á aðalfundi félagsins 2014.
Með lögum þessum eru úr gildi numin eldri lög félagsins.
Stjórn hestamannafélagsins Sleipinis 25.01 2014.
f.h. stjórnar
__________________
Íris Böðvarsdóttir, ritari stjórnar
Stjórn Sleipnis vill árétta við alla knapa sem koma fram sem fulltrúar hestamannafélagsins Sleipni á landsmóti 2014, að koma fram í
félagsbúningi Sleipnis. Það er virðingarvottur við félagið og styrkir félagsanda allra félaga Sleipnis að sjá keppendur Sleipnis í félagsbúningi við keppni á landsmóti.
Kveðja frá Stjórn Sleipnis
Vegna fyrirspurna um keppnisjakka Sleipnis. Baldvin og Þorvaldur ( Ragna ) taka niður mál og safna í pöntun á Sleipnis-keppnisjökkum og munu þeir verða klárir fyrir LM2014.
Mæta þarf í verslun Baldvins og Þorvaldar til að ganga frá pöntun.
Áætlað er að vera með jakka til mátunar í sem flestum stærðum til að máta og panta eftir. Gott væri að þeir sem hafa áhuga hafi samband á verslun@baldvinogthorvaldur.is
Stjórnin
Minnum á funidnn með frambjóðendum til sveitastjórnakosninga í Árborg, í kvöld, 12.maí kl. 20 í félagsheimilinu Hliðskjálf. Fjallað verður um málefni hestamanna, reiðvegamál og önnur þau mál er á hestamönnum brenna.
• Formaður setur fundinn, skipar fundarstjóra og ritara
• Framboðin kynna sig og sín málefni
• Fyrirspyrjendur beina spurningum til framboðsaðila.
• Svör og umræður
Fjölmennum og tökum þátt í umræðunum um málefni sem okkur varðar
Hússtjórn verður með kaffiveitingar.
Stjórnin